Fótbolti

Töpuðu fótboltaleik 43-0

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Lið Carphilly Castle Ladies í velsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hefur gengið í gegnum erfitt tímabil í vetur.

Liðið hefur spilað tíu leiki og tapað þeim öllum. Markatala liðsins eftir þessa tíu leiki er 1-219 en liðið tapaði síðasta leik sínum með 43 mörkum gegn engu.

Nánast allir leikmenn aðaliðsins yfirgáfu félagið í sumar og gengu til liðs við erkifjendurna í Cwmbran FC. Liðið er því að mestu skipað leikmönnum úr vara- og unglingaliðum félagsins auk þess sem að stjórnarformaðurinn Julie Boyce tók fram skóna á ný.

„Þetta er erfitt en við erum að reyna að ganga bein í baki og með höfuðið hátt," sagði Boyce í samtali við fréttavef BBC. „Ef þetta heldur áfram svona í mörg ár í viðbót óttast ég vissulega um framtíð félagsins. En það er meira í gangi hjá félaginu en bara aðalliðið."

Castle hefur verið eitt sterkasta kvennalið Wales undanfarin ár og varð til að mynda velskur bikarmeistari árið 2010. Unglingalið félagsins eru að berjast um titla í sínum flokkum.

Þess má geta að Emily Allen skoraði fimmtán mörk í 43-0 sigri Cardiff Met á Castle í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×