Innlent

Skorar á aðgerðasinna að fara fram á aðgang

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Eva Hauksdóttir fær aðgang að þeim hluta skýrslu Geirs Jóns Þórissonar sem fjallar um hana sjálfa. Hún skorar á aðra sem tóku þátt í Búsáhaldabyltingunni að sækjast eftir aðgangi að skýrslunni.
Eva Hauksdóttir fær aðgang að þeim hluta skýrslu Geirs Jóns Þórissonar sem fjallar um hana sjálfa. Hún skorar á aðra sem tóku þátt í Búsáhaldabyltingunni að sækjast eftir aðgangi að skýrslunni.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst í gær að þeirri niðurstöðu að lögreglustjóra höfðborgarsvæðisins bæri að veita Evu Hauksdóttur aðgang að hluta skýrslu Geirs Jóns Þórissonar, fyrrverandi yfirlögregluþjóns, um Búsáhaldabyltinguna 2008 – 2009.

Í desember 2012 hafði Evu verið synjað um aðgang að skýrslunni þar sem hún væri vinnugagn lögreglu og hefði að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar. Eva hefur nú rétt á aðgangi að hlutum þess sem innihalda upplýsingar um hana sjálfa og þeim hlutum sem hefði að geyma orðréttar tilvitnanir í fjölmiðla.

Í færslu sem Eva setti inn á bloggsíðu sína í gær skorar hún á aðgerðarsinna sem tóku þátt í Búsáhaldabyltingunni að sækjast eftir aðgangi að skýrslunni. 

„Það er óþolandi að yfirvöld komist upp með að leyna gögnum sem varða almenning og nú skora ég á ykkur öll sem áttuð persónuleg samskipti við lögreglu eða hafið aðrar ástæður til þess að gruna að ykkar sé getið sérstaklega í skýrslunni, að senda lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu tölvupóst og fara fram á aðgang að þeim hluta skýrslunnar sem varðar ykkur persónulega,“ segir á vefsíðu Evu.

Í niðurstöðunni kemur fram að í skýrslunni sé á einum stað sérstök umfjöllun um samskipti lögreglumanna við Evu. Umfjöllunin er afmörkuð og vel aðgreinanlega frá öðrum hlutum skýrslunnar án þess að samhengi textans raskist. Varð það því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu sé rétt, á grundvelli 14. og 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, að afhenda kæranda afrit af þessum hluta skýrslunnar, svo sem afmarkað er með nánari hætti í úrskurðarorði.

Úrskurðinn er hægt að lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×