Innlent

Svangur fangi lagði sér dýnu til munns

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það skal ósagt látið hvert næringargildið í svampdýnum er.
Það skal ósagt látið hvert næringargildið í svampdýnum er.
Karlmaður, sem handtekinn var á dögunum þegar hann neitaði að greiða reikning á Flughóteli Keflavíkur, hefur verið dæmdur til að greiða ríkissjóði 20 þúsund krónur. Ástæðan er sú að á meðan að hann dvaldi í fangaklefa, yfir eina nótt, beit hann gat á dýnu sem var inni í fangaklefanum.

Skýrsla var tekin af ákærða hjá lögreglu að morgni 1. desember 2011. Þar segist maðurinn viðurkenna að hafa skemmt dýnuna en hann segist hafa bitið í dýnuna og tekið gervileðrið af henni. Það hafi fokið gífurlega í ákærða við að hafa verið handtekinn vegna starfsmanns á hótelinu. Kvaðst maðurinn ekki geta útskýrt hvers vegna hann hafi eyðilagt dýnuna en hann hafi bara orðið svo reiður að lenda í fangelsi eftir að hafa farið út að borða. Aðspurður kvaðst hann fús til að greiða fyrir skemmdirnar og hann viti að hann eigi ekki að gera svona hluti.

Maðurinn viðurkenndi líka fyrir Héraðsdómi Reykjaness að hafa eyðilagt umrædda dýnu en það hafi verið nauðsyn að éta dýnuna vegna hungurs. Hann eigi því ekki að sæta refsingu. Aðspurður fyrir dóminum hvort hann hafi ekki verið að koma úr mat á hóteli þegar hann var handtekinn, kvaðst hann hafa fengið forrétt, sem hafi verið ávaxtadiskur ásamt salati en félagi hans hafi fengið kalda súpu. Þá hafi þeir fengið rauðvínsflösku sem þeir hafi rétt verið byrjaðir á.

Í dómsniðurstöðu kemur fram að frásögn og skýringar mannsins um að hann hafi verið svo soltinn að hann hafi ekki átt annan kost en að leggja sér svampdýnu til munns svo fráleita að virða verður hana að vettugi. Maðurinn hafi fengið í það minnsta þvisvar sinnum að drekka yfir nóttina og var einnig boðið kaffi sem hann afþakkaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×