Íslenski boltinn

Gary Martin skoraði tvö þegar KR komst í úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Martin.
Gary Martin. Mynd/Daníel
Það verða KR og Leiknir sem spila til úrslita í Reykjavíkurmóti karla í fótbolta í ár en undanúrslitaleikirnir fóru fram í Egilshöllinni í kvöld. Leiknir vann Val í vítakeppni og KR vann 4-1 sigur á Víkingum þrátt fyrir að leika manni færri í klukkutíma.

Þorsteinn Már Ragnarsson kom KR í 1-0 á 28. mínútu en aðeins mínútu síðar fékk Andri Ólafsson rautt spjald fyrir brot á Hirti Júlíusi Hjartsyni sem var að sleppa í gegn.

Hjörtur Júlíus Hjartarson jafnaði leikinn skömmu síðar með skalla eftir hornspyrnu en Gary Martin kom KR hinsvegar yfir á ný á 34. mínútu og þannig var staðan þar til að KR skoraði tvö mörk á tveimur mínútum á lokakafla leiksins.

Gary Martin lagði upp mark fyrir Davíð Einarsson á 82. mínútu og skoraði síðan sjálfur mínútu síðar, hans annað mark í leiknum.

Þetta er fimmta árið í röð sem KR-ingar spila til úrslita í Reykjavíkurmótinu en þeir hafa þurft að sætta sig við silfur undanfarin tvö ár eftir að hafa unnið Reykjavíkurmeistaratitilinn 2009 og 2010.

Úrslitaleikur KR og Leiknis fer fram í Egilshöllinni á mánudagskvöldið og hefst klukkan 19.00.

Upplýsingar um gang mála eru fengnar af vefsíðunni fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×