Innlent

Svipað mál lagt fram í fyrra

Höskuldur Kári Schram skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra stinga saman nefjum.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra stinga saman nefjum. Fréttablaðið/GVA
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sakaði þingmenn stjórnarandstöðunnar um tvískinnung og undraðist afstöðu þeirra til hagstofufrumvarpsins. Þetta kom fram í máli ráðherra á Alþingi í gær.

Sigmundur sagði að síðasta ríkisstjórn hefði í raun samþykkt mjög svipað mál. „Þá gekk málið miklu lengra en nú þegar nefndin er búin að fara yfir þetta og lagfæra. Ekki nóg með það heldur var rökstuðningur síðustu ríkisstjórnar í raun sá sami og sá rökstuðningur sem nú hefur komið fram,“ sagði Sigmundur.

Samkvæmt frumvarpinu fær Hagstofa Íslands heimild til að safna upplýsingum um öll lán einstaklinga. Málið er umdeilt og hefur stjórnarandstaðan lagst gegn því. Hörður Helgi Helgason, forstjóri Persónuverndar, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 á sunnudag að farið væri ansi nærri einstaklingum með þessari upplýsingasöfnun.

Forsætisráðherra segir að þessar upplýsingar séu mikilvægar þegar kemur að aðgerðum vegna skuldavanda heimilanna. „Þannig að þegar upp koma álitamál, þegar einhver heldur því fram að ekki sé verið að gera hlutina eins og til stóð, þá verði til staðar upplýsingar til að sýna fram á að það sé verið að gera hlutina eins og til stóð,“ sagði forsætisráðherra á Alþingi í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×