Innlent

Skiluðu ekki fullgerðum ársreikningum

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, formaður SJálfstæðisflokksins hefur verið erlendis og því ekki haft tækifæri til að skrifa undir ársreikninginn.
Bjarni Benediktsson, formaður SJálfstæðisflokksins hefur verið erlendis og því ekki haft tækifæri til að skrifa undir ársreikninginn. mynd/Stefán Karlsson
Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar hafa ekki enn skilað fullgerðum ársreikningi til Ríkisendurskoðunar eins og lög gera ráð fyrir. Aðrir flokkar sem buðu fram til þings hafa skilað inn fullgerðum ársreikningum.

Stjórnmálaflokkar áttu að skila inn ársreikningum fyrir 1. október síðastliðinn.

Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdarstjóri Sjálfstæðisflokksins, segir að flokkurinn hafi skilað ársreikningnum inn vel fyrir mánaðarmótin eins og lög geri ráð fyrir. Það sem vantaði voru undirskriftir hans sjálfs og Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins en þeir hafi verið erlendis til skiptis.

„Þannig að það vantar aðeins þetta formsatriði, sem við munum ljúka í þessari viku,“ segir Jónmundur. En að hans sögn kom Bjarni heim í dag,  hann hefur verið á á ferðalagi, annars vegar vegna fundar hans með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington og hins vegar vegna opinberra erindagjörða í Lúxemborg.

Eva Lind Þuríðardóttir, framkvæmdarstjóri Pírata, segir að flokkurinn sé búinn að skila ársreikningnum inn og benti á endurskoðanda flokksins.

Endurskoðandinn segir að ársreikningnum hafi verið skilað inn fyrir mánaðarmót. Hann hafi fyrir tveimur dögum fengið tilkynningu frá Ríkisendurskoðun um að undirskriftir stjórnar vantaði, þar sé líklega um mistök við sendingu ársreikningsins að ræða.

Aðrir flokkar sem ekki hafa skilað inn ársreikningum eru L-listinn, listi fólksins, Þinglistinn-framboð óháðra í Norðurþingi, Bæjarlistinn Akureyri og Fólkið í bænum, en þessir listar eiga það sameiginlegt að hafa boðið sig fram til sveitarstjórnakosninga vorið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×