Skoðun

Hvers vegna nauðgun er versta ofbeldið

Sæunn Kjartansdóttir skrifar
Mikil umræða hefur orðið eftir umdeildan dóm Hæstaréttar þar sem sú háttsemi að troða fingrum inn í leggöng og endaþarm konu var skilgreind sem líkamsárás en ekki kynferðisbrot. Forsendur dómsins voru að brotið hefði ekki veitt hinum ákærða kynferðislega ánægju.

Ýmsir hafa leitast við að varpa ljósi á lagalega hlið málsins en minna hefur verið fjallað um sálræna hlið þess. Eðlilegt er að spyrja hvort sé verri lífsreynsla, að verða fyrir kynferðisofbeldi eða annars konar líkamsárás, og þá hvers vegna?

Veist að mannhelgi

Það er margt líkt með kynferðisofbeldi og líkamsmeiðingum á borð við spörk, högg og aðrar limlestingar. Í öllum tilvikum upplifir þolandi sársauka, niðurlægingu, ótta og vanmátt. Alvarlegustu afleiðingar ofbeldis eru dauði en samkvæmt hegningarlögum kemur nauðgun næst á eftir morði. Hvers vegna? Það sem gerir nauðgun alvarlegri en annað ofbeldi er að veist er að mannhelgi viðkomandi einstaklings.

Þegar ein manneskja þröngvar sér inn í líkama annarrar fer hún inn fyrir helgustu mörk hennar. Við slíkan verknað brýtur gerandi sjálfsákvörðunarrétt þolanda á bak aftur og neyðir hann inn í fullkominn vanmátt, hjálparleysi, sársauka og ótta á sama tíma og hann er inni í líkama þolanda. Auk þess að upplifa sig saurgaða eiga margir þolendur erfitt með að treysta öðrum og njóta nándar eftir slíka reynslu. Þannig vegur nauðgun bæði að tilfinningu þolenda fyrir eigin heilleika og trausti til annarra.

Áhyggjuefni

Nauðgun er ofbeldi þar sem ein manneskja ryðst inn í líkama annarrar. Það er áhyggjuefni að þegar ofbeldið er grímulaust, eins og í fyrrnefndu máli, er það ekki kallað nauðgun. Ég vona að sú niðurstaða byggi ekki á þeirri forneskjulegu hugmynd að nauðganir stafi af óheftri kynhvöt karlmanna.

Almenningur þarf að geta treyst því að betri þekking og dýpri skilningur á eðli nauðgana hafi skilað sér inn í æðsta dómstól landsins.




Skoðun

Sjá meira


×