Fótbolti

Grindavík með tvö mál á borði FIFA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jósef Kristinn í leik með Grindavík.
Jósef Kristinn í leik með Grindavík. Mynd/Anton
Tvær deilur sem snerta leikmannamál Grindavíkur eru nú til umfjöllunar hjá Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA.

Þetta kemur fram í ársskýrslu stjórnar knattspyrnudeildar Grindavíkur sem birt er á heimasíðu félagsins.

Annað málið snertir Jósef Kristinn Jósefsson sem samdi við búlgarska liðið Burgas árið 2011. Seinni greiðsla félagsins fyrir leikmanninn átti að berast 1. apríl síðastliðinn en er enn ógreidd.

Grindavík sendi því málið í innheimtu til FIFA. Jósef Kristinn gekk aftur til liðs við Grindavíkur á sínum tíma og vegna þess kom Borgas með kröfu til Grindavíkur um uppeldisbætur. Sú krafa er einnig í innheimtu hjá FIFA.

Annað mál snertir tékkneska leikmanninn Michal Pospisil, sem lék með Grindavík árið 2011. Hann var með óuppsegjanlegan samning við félagið út árið 2012 og náðu aðilar ekki að semja um starfslok. Segir í skýrslunni að málið sé enn óleyst og komið inn á borð FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×