Innlent

Mikil spenna um hvort Stoltenberg haldi velli

Kristján Már Unnarsson skrifar
Þingkosningarnar í Noregi eftir fimm daga eru einhverjar þær mest spennandi þar í landi um langt skeið. Flest bendir til að rauðgræn ríkisstjórn Jens Stoltenbergs falli og að við taki hægri stjórn undir forsæti Ernu Solbergs.

Þetta er að minnsta kosti samdóma álit þeirra reynslubolta sem sátu á pallborðinu fyrir fullum sal í Norræna húsinu í dag, á fundi sem Norræna félagið, norska sendiráðið, Alþjóðastofnun Háskóla Íslands og Upplýsingastofa um Norðurlönd stóðu fyrir. Þau Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Eiður Guðnason og Svavar Gestsson, sem öll gjörþekkja norsk stjórnmál, eftir fyrri störf sín sem alþingismenn, ráðherrar og sendiherrar, lýstu mati sínu í fréttum Stöðvar 2.

Þótt flest bendi til þess að Jens Stoltenberg þurfi að víkja úr forsætisráðherrastólnum fyrir Ernu Solberg, leiðtoga Hægri flokksins, voru frummælendur þó á því að Stoltenberg gæti reynst mjög öflugur á lokaspretti kosningabaráttunnar, og þótt stjórn hans félli væri það næstlíklegasti kosturinn, á eftir hægri stjórn, að hann myndaði minnihlutastjórn.

Þriðja stjarna kosninganna er Siv Jensen, leiðtogi Framfaraflokksins, sem gæti komist í ríkisstjórn í fyrsta sinn. Svavar Gestsson segir þá niðurstöðu stórtíðindi og Siv Friðleifsdóttir telur stjórnarþátttöku Framfaraflokksins munu hafa áhrif á öllum Norðurlöndum. Þau Sigríður Dúna og Eiður voru þó á því að stjórnarskipti í Noregi myndu ekki leiða til neinna grundvallarbreytinga í norsku samfélagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×