Íslenski boltinn

Óli Þórðar: Erum í þessari keppni til að vinna hana

Hjörtur Júlíus Hjartason skrifar
Ólafur Þórðarson.
Ólafur Þórðarson. Mynd/Anton
Ólafur Þórðarson, þjálfari karlaliðs Víkings í knattspyrnu var þokkalegur sáttur með bikardráttinn en hans menn mæta Grindvíkingum á heimavelli í 8 liða úrslitum bikarkeppninnar.

Víkingur, sem leikur í næstefstu deild sigraði úrvalsdeildarlið Fylkis í gærkvöld og tryggði sér þar með sæti í næstu umferð. Víkingum hefur hinsvegar ekki gengið sem skyldi í deildinni það sem af er en það á liðið sammerkt með Grindvíkingum sem eru á botninum í úrvalsdeildinni.

„Staða liðanna í deildinni hefur ósköp lítið að segja í þessum leik. Menn mæta til leiks í bikarkeppninni með annað hugarfar en í deildinni og þar getur allt gerst. Það sást best í gær", sagði Ólafur Þórðarson.

Ólafur hefur í gegnum tíðina verið afar sigursæll í bikarkeppni KSÍ en sem leikmaður og þjálfari hefur hann hampað bikarnum sjö sinnum. Hann þekkir því sigurtilfinninguna vel og í hans huga kemst aðeins eitt að.

„Ég stefni á að fara alla leið og vinna þessa keppni. Til þess er maður í þessu. Maður fer í alla leiki til að vinna þá og bikarkeppnin er ekki undanskilin."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×