Innlent

Heiðagæs fjölgar við Kárahnjúka og ekkert sandfok frá Hálslóni

Ekkert sandfok hefur enn orðið frá Hálslóni á þeim fimm árum, sem liðin eru frá því Kárahnjúkavirkjun hóf rekstur, og lónið olli ekki fækkun heiðagæsa, - þvert á móti hefur gæsum fjölgað. Lagarfljót er hins vegar orðið gruggugra.

Georg Pálsson, stöðvarstjóri Kárahnjúkavirkjunar, segir reksturinn þessi fyrstu fimm ár hafa gengið mjög vel. Kárahnjúkastífla hafi til dæmis ekkert lekið. Menn hafi engar áhyggjur af henni og allt líti mjög vel út á Hálslónssvæðinu.

Á vefnum sjálfbaerni.is er birtar skýrslur óháðra aðila um margvísleg áhrif virkjunarinnar. Óli Grétar Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar, segir að þau áhrif sem búist var við hafi að mestu leyti komið fram. Sum hafi reynst minni og sum geti orðið meiri.

Ljóst er að Lagarfljót er orðið gruggugra, eins og spáð var í matskýrslu. Það séu varanleg neikvæð áhrif á lífríki Lagarfljóts, að sögn Óla Grétars, en á móti komi að lífríki í Jökulsá á Dal hafi eflst, þegar gruggið þar hafi minnkað á móti.

Rof á árbökkum sem rekja má til virkjunarinar er talið takmarkað og staðbundið í fyrirliggjandi skýrslum og virðist rofhraði ekki hafa aukist, miðað við það sem áður var.

Strönd Héraðsflóa er enn í jafnvægi en búist við að hún gangi til baka með tímanum. Matskýrsla gerði ráð fyrir 100-200 metra undanhaldi strandarinnar á 100 ára tímabili þannig að Óli Grétar segir að menn verði að bíða lengur til að sjá hvað þar gerist.

Þótt Hálslón tæki hreiðursstæði af heiðagæs hefur henni ekki fækkað. Heiðagæs hefur almennt fjölgað á Kárahnjúkasvæðinu en Óli Grétar segir það ekki endilega vegna áhrifa virkjunarinnar heldur hafi almennt verið uppgangur í heiðagæsastofninum á landinu öllu.

Ekki hefur reynst unnt að rekja tilflutning hreindýra til Kárahnjúkavirkjunar en Óli Grétar segir erfitt að meta hvaða áhrif til dæmis beitarálag á svæðum hafi líka á búsvæðaflutninga hreindýranna.

Mikið landrými fór undir vatn og landslagið þar undir er horfið sjónum manna. Um 32 ferkílómetrar gróðurs fóru undir Hálslón en reynt er að bæta fyrir það með því að græða upp jafnmikið land annarsstaðar.

En hvað með áhyggjur af sandfoki frá Hálslóni?

Georg Pálsson stöðvarstjóri og Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri segja báðir að enginn sandur hafi ennþá fokið út úr lóninu en Landgræðslan vinnur með Landsvirkjun að fokvörnum. Sveinn segir að menn geti þó átt von á ofsaroki og að einhver sandur kynni að berast út úr lóninu. Allir séu þó að leggjast á eitt til að koma í veg fyrir að það gerist. Sveinn telur að með árunum dragi úr líkum á sandfoki og eftir 15-20 ár búist menn ekki við því að meiri hætta verði á sandburði út úr lóninu.

Óli Grétar tekur fram að þættir eins og rofáhrif og gróðuráhrif komi fram á mjög löngum tíma þannig að ekki sé núna hægt að segja endanlega til um áhrif virkjunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×