Innlent

Yngsta Byrgisstúlkan orðin afburðanemandi

Karen Kjartansdóttir skrifar
Stúlka sem lenti á glapstigum fíkniefna tólf ára gömul og var misnotuð í Byrginu þegar hún var sextán ára ákvað að breyta lífi sínu þegar hún var lífguð við í fjórða skiptið sem hún sprautaði sig með of stórum skammti eiturlyfja. Í sumar hlaut hún styrk frá Háskóla Íslands sem aðeins er veittur afburðarnemendum og stefnir á að læra sálfræði.

Það má segja að framtíðin hafi ekki brosað við Írisi Dögg Héðinsdóttur. Sem barn var hún misnotuð kynferðislega, snemma ánetjaðist fíkniefnum byrjaði að sprauta sig og eftir að hafa lent í misnotkun þegar hún dvaldi í Byrginu óttaðist hún að verða aldrei aftur heil.

Líf hennar hefur þó snúst til betri vegar. Hún er nú 25 ára gömul kona sem ver nær öllum frítíma sínum í að vinna að góðgerðarmálum í sjálfboðastarfi fyrir Hjálpræðisherinn og Samhjálp og í vor brautskráðist hún frá Borgarholtsskóla og hlaut þá viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í félagsgreinum auk þess sem hún fékk styrk frá Háskóla Íslands sem ætlaður er afburðarnemendum en hún ætlar að hefja nám í sálfræði í haust.

„Ég keyrði mig eiginlega alveg út, ég fékk fjórum sinnum hjartastopp og ég var eiginlega bara heppin að lifa þetta af. Ég leitaði í margar meðferðir og fékk ýmis úrræði en það var mjög erfitt að hafa stjórn á mér því fíknin var mikil og ég þurfti að bæla margt niður. Það endaði með því að ég náði að verða edrú í Hlaðgerðarkoti hjá Samhjálp," segir Íris sem segist hafa öðlast nýtt líf með samtökunum.

Íris segir að hún hafi verið mjög sköðuð á sál og líkama eftir þetta og hún hafi þurft að læra marga hluti, svo sem væntumþykju, samskipti samúð og að bæla ekki sínar eigin tilfinningar niður. En byrjaði líka að læra á bók og komast að því að hún bjó yfir miklum námshæfileikum.

„Skólinn verður allt hjá mér, skólinn, að hjápa öðrum og trúin. Ég stefndi á þennan háskólastyrk allan tímann. Reyndar ætlaði ég að fá yfir 9.5 í meðaleinkun en ég var mjög veik þar sem ég fékk síðbúna áfallastreituröskun eftir atburðina í Byrginu. Þetta voru mjög alvarleg og erfið einkenni sem urðu þess valdandi að skólasóknin fór ekki alveg eins og ég vildi, ég fékk bara 9 í meðaleiknun," segir hún og hlær en hún segir námshæfileika sína hafa komið mörgum og ekki síst henni sjálfri á óvart.

Íris segir að fólk geri sér ekki grein fyrir því hve áhrif misnotkunar eru mikil. Svona lýsir hún einkennum álfallastreituröskunar.

„Ég var að eiga við miklar martraðir, var með verki í stoðkerfi og þjáðist af streitu og ofsakvíða. En ég fékk rosalega mikla hjálp frá sálfræðingnum mínum, samfélaginu, trúni, Hjálpræðishernum og Samhjálp."

Í niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands frá því í maí árið 2008 segir meðal annars að Guðmundur Jónsson, fyrrverandi forstöðumaður í Byrginu, hafi „misnotaði aðstöðu sína og fjárhagslega yfirburði, veikleika skjólstæðinga sinna og leit þeirra í trúna á Guð, í þeim tilgangi að fullnægja eigin hvötum og kynlífsfíkn." Hann var dæmdur fyrir að hafa misnotað fjórar stúlkur en Íris var þeirra yngst.

„Hann fékk mjög stuttan dóm miðað við barnamisnotkun, ég var barn þegar ég var í Byrginu. Honum var sleppt út fyrir góða hegðun eftir eitt og hálft ár að ég held. Ég þekki fanga sem sátu inni með honum sem hafa sagt mér frá því hvernig hann var að grínast með þetta og þótti þetta bara fyndið."

Íris segist vera í sambandi við hinar stúlkurnar sem dvöldu í Byrginu en hitti þær lítið. „Mér þykir alveg ótrúlega vænt um þær en ég á erfitt með að hitta þær því ég á erfitt með að rifja upp fortíðina. Ég veit að flestum þeirra gengur ágætlega, svona miðað við aðstæður," segir hún.

Íris telur að fólk geri sér almennt ekki grein fyrir því hve alvarlegar afleiðingar kynferðisofbeldið í Byrginu hafði á líf stúlknanna.

„Ég er mikið að hjálpa öðrum stelpum sem hafa lent í svona og það eru fáir sem gera sér grein fyrir því að þetta hefur lífstíðarafleiðingar og það eru ekki margir sem lifa þetta af. Sjálf orða ég það svo að ég hafi lifað þetta allt af og fyrir það er ég mjög þakklát."

Íris segir að reiðin gangvart Guðmundi hafi gert sér mjög erfitt, til að takast á við reiðina, eitt ráð hafi gefist best.

„Ég fékk skringileg en góð ráð - ég bið fyrir honum. Ég bið að guð gefi honum kærleik, tækifæri á góðu lífi og gefi honum allt það sem hann þarfnast. Ég bið fyrir honum í kærleik og það hefur tekið frá mér reiðina mína. Besta lækningin er fyrirgefning," segir Íris en tekur fram að hún hafi ekki áhuga á því að mæta Guðmundi út á götu.

„Ég gat ekki haft stjórn á því sem gerðist, ég hafði ekki vit á því og það var engin leið fyrir mig að stoppa þetta og breyta þessu og til að þurfa ekki að lifa í endalausri reiði var auðveldast að fyrirgefa."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×