Íslenski boltinn

Búinn að bíða í 14 leiki eftir hundraðasta sigrinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Þórðarson.
Guðjón Þórðarson. Mynd/Valli
Í lok leiks ÍA og Fram á Akranesvelli 20. maí 2008 leit allt út fyrir það að Guðjón Þórðarson myndi mjög fljótlega bætast í hundrað sigra hópinn með Ásgeiri Elíassyni. Guðjón var þarna að stýra liði til sigurs í 99. sinn í efstu deild og allt leit út fyrir að hann ætlaði að vera með Skagaliðið í efri hlutanum annað árið í röð.

Guðjón var þarna á sínu ellefta tímabili sem þjálfari í efstu deild og var búinn að stýra liðum sínum til sigurs í 99 af 183 leikjum eða 54 prósentum þeirra leikja sem hann hafði tekið þátt í sem þjálfari í deild þeirra bestu.

Það gat enginn séð framhaldið fyrir. Skagamenn unnu ekki í næstu níu leikjum sínum og Guðjóni var sagt upp störfum eftir 1-6 skell á móti Breiðabliki 20. júlí 2008 en það var fjórða tap liðsins í röð.

Síðan liðu þrjú tímabil án þess að Guðjón reyndi fyrir sér í úrvalsdeildinni en hann sneri aftur í ár og tók við liði Grindavíkur.

Hundraðasti sigurinn lætur enn bíða eftir sér því Grindvíkingar eru enn án sigurs eftir fimm umferðir og Guðjón er því búinn að stýra liði í 14 leikjum í röð án þess að vinna. Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar, sem var „bara" búinn að vinna 75 leiki þegar 99. sigurinn kom í hús hjá Guðjóni fyrir fjórum árum, vann sinn hundraðasta sigur þegar Stjarnan vann lærisveina Guðjóns í Grindavík 21. maí síðastliðinn.

Næsti leikur Grindavíkurliðsins er í dag þegar liðið tekur á móti Skagamönnum í beinni á Stöð 2 Sport. Guðjón vann 59 sigra sinna sem þjálfari Skagamanna og hefur unnið 5 af 10 leikjum sínum á móti þeim. Nú er að sjá hvort hann geti orðið fyrsti þjálfarinn í sumar til að stýra liði til sigurs á móti nýliðunum af Skaganum sem hafa komið upp af miklum krafti alveg eins og þeir gerðu undir stjórn Guðjóns fyrir tuttugu árum síðan.

Tveir aðrir leikir fara fram í deildinni í dag. FH fær Fylki í heimsókn klukkan 14 og Fram og KR mætast á Laugardalsvellinum klukkan 16.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×