Innlent

Skýrsla Seðlabanka krefst mikillar yfirlegu

Gylfi Arnbjörnsson
Gylfi Arnbjörnsson
Efnahagsmál Forsvarsmenn aðila vinnumarkaðarins fagna nýrri skýrslu Seðlabankans um valkosti Íslands í gjaldmiðilsmálum. Framkvæmdastjóri SA segir að treysta þurfi krónuna og forseti ASÍ segir ljóst að upptaka evru sé besti kosturinn í stöðunni. Þá telja þeir báðir mikilvægt að skýrslan verði rædd.

„Mér sýnist að Seðlabankinn hafi lagt sig fram við að greina þessi mál og gert það eins faglega og unnt er. Eftir stendur sú niðurstaða að þetta sé álitamál og að rökstyðja megi tvo kosti. Annars vegar að okkur sé betur borgið í ESB með evru og hins vegar að halda krónunni,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, og heldur áfram: „Ég held að það sé rétt sem fram kemur að upptaka evrunnar er miklu fremur langtímamál en að hún sé skyndilega hrist fram úr erminni. Verkefnið til skamms tíma hlýtur því að vera að fá krónuna til að virka.“

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir skýrslu Seðlabankans vandaða. „Ég held að það sé alveg klárt að niðurstaða hennar er að hagsmunum atvinnulífsins sé best borgið með upptöku evrunnar,“ segir Gylfi. „Þá er Seðlabankinn mjög opinskár í því mati sínu að reynslan af fljótandi krónu sé alls ekki góð. Hún hafi ýkt sveiflur fremur en að bregðast við þeim.“

Þá bendir Gylfi á að aðild að ESB kunni að vera ófær. Ef svo reynist sjái hann ekki hvernig fljótandi króna geti verið lausnin. „Mér finnst þess virði að skoða hvort ekki sé eðlilegt að taka aftur upp fast gengi í ljósi þeirra takmarkana sem við munum þurfa að hafa á gjaldeyrishreyfingum. Betur gekk að tryggja stöðugleika, lága verðbólgu og lága vexti með fast gengi en þegar við þurftum að fleyta krónunni á sínum tíma vegna áhættunnar af árásum spákaupmanna-,“ segir Gylfi.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×