Erlent

Óttast að efnavopnin verði notuð

Hillary Clinton sat sinn síðasta utanríkisráðherrafund í höfuðstöðvum NATO í gær.
Hillary Clinton sat sinn síðasta utanríkisráðherrafund í höfuðstöðvum NATO í gær. Mynd/NatO
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ítrekaði í gær áhyggjur sínar af því að efnavopnum yrði beitt í lokaátökunum um yfirráð í Sýrlandi. Hún segir fall stjórnar Assads óhjákvæmilegt.

„Við höfum áhyggjur af því að stjórn Assads muni í örvæntingu sinni grípa til efnavopnanna eða að hún missi stjórn á þeim í hendur einhvers þeirra mörgu hópa sem takast á í Sýrlandi,“ sagði Clinton á blaðamannafundi í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Brussel í gær.

„Alþjóðasamfélagið er algjörlega sameinað í þessu máli og við höfum sagt mjög skýrt að með notkun efnavopnanna væri farið yfir rautt strik. Þeir sem gerðu slíkt yrðu dregnir til ábyrgðar. Við segjum það eins skýrt og við mögulega getum.“

Clinton lagði áherzlu á að finna þyrfti friðsamlega, pólitíska lausn á borgarastríðinu í Sýrlandi. Hún lýsti yfir stuðningi við formlegan samstarfsvettvang andstöðuaflanna í landinu. „Við teljum að fall stjórnarinnar sé óhjákvæmilegt. Þetta er bara spurning um hversu margir þurfa að deyja áður en sá dagur rennur upp.“- óþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×