Innlent

Hart sótt að Ögmundi í Kraganum

Ólafur Þór Gunnarsson
Ólafur Þór Gunnarsson
Mikið hefur verið um nýskráningar í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði í Suðvesturkjördæmi. Forval fer fram í kjördæminu 24. nóvember, en kjörskrá var lokað á miðnætti á miðvikudag. Til að kjósa í forvalinu þarf að vera skráður félagi í flokknum.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að stuðningsmenn Ólafs Þórs Gunnarssonar, bæjarfulltrúa í Kópavogi og varaþingmanns, hafi verið duglegir að fá fólk til að skrá sig í flokkinn. Ólafur sækist eftir því að leiða listann, en hann skipaði þriðja sæti hans árið 2009.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra vill einnig leiða listann, en hann skipaði annað sætið síðast. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sem var í efsta sæti 2009, gefur ekki kost á sér.

Samkvæmt upplýsingum frá flokksskrifstofunni voru tæplega 900 á kjörskrá í Kraganum áður en ákvörðun um forval var tekin. Síðan hafa um 300 bæst við og félögum því fjölgað um þriðjung.

Alls tóku 738 þátt í forvali flokksins árið 2009. Nýskráðir nú eru um 40% af þeim sem tóku þátt í því forvali. Athygli vekur að mun meira er um nýskráningar í Kraganum en í Reykjavík, þar sem um 200 nýir hafa skráð sig í flokkinn.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×