Skoðun

Súðavík er í brunarúst

Bergvin Oddsson skrifar
Umfjöllun um hinn stóra sinubruna sem átti sér stað í lok sumars á Laugarlandi í landi Súðavíkurhrepps hefur ekki farið fram hjá neinum. Nú er reikningurinn kominn og hljóðar upp á 20 milljónir króna. Sveitarfélagið gerði ráð fyrir að kostnaður við að reka slökkviliðið væri ein milljón króna fyrir árið 2012. Kostnaður vegna þessa bruna er því tuttugu sinnum hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Tuttugu milljónir virka ekki sem há fjárhæð en fyrir lítið sveitarfélag sem telur innan við 200 íbúa er það stór biti til að kyngja þegar haft er til hliðsjónar að skatttekjur sveitarfélagsins árið 2011 voru innan við 80 milljónir króna. Við erum að tala um fjórðung tekna sveitarfélagsins á ársgrundvelli.

Á vegum ríkisins er enginn sjóður til sem tekur á svona slysum. Hvorki Bjargráðasjóður né Viðlagatrygging Íslands greiða bætur vegna svona hamfara. Nú þarf hver íbúi Súðavíkurhrepps að taka á sig meira en hundrað þúsund króna tjón vegna fífldirfsku nokkurra einstaklinga sem höfðu það gaman í Laugarlandi fyrr í sumar.

Reykjavíkurborg veltir um 54 milljörðum króna á hverju ári. Fjórðungur þess er um 11 milljarðar króna. Ímyndið ykkur ef tjón af slíkri stærðargráðu kæmi til og reikningurinn ætti allur að lenda á Reykjavíkurborg! Ég myndi ætla að borgarbúar myndu ekki sætta sig við slíkt. Það væri fróðlegt að vita hvort stjórnvöld myndu ekki þá stökkva upp og finna leiðir til þess að aðstoða Reykjavíkurborg. Það er ekki hægt fyrir stjórnvöld að loka augunum fyrir vandamáli Súðavíkurhrepps og gera ekkert í málinu. Ekkert sveitarfélag getur staðið undir svona miklum útgjöldum og samt haldið úti lögbundinni þjónustu. Ég skora á ríkisstjórnina að finna lausn á þessu máli og að komið verði á fót sjóði sem muni hjálpa sveitarfélögum með sams konar óvænt útgjöld. Einnig væri hægt að breyta lögum um Bjargráðasjóð eða Viðlagatryggingu Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×