Innlent

Bólusetningar hefjast í október

Sóttvarnalæknir segir meðal annars að fólk sem er eldra en 60 ára eigi að láta bólusetja sig.
Sóttvarnalæknir segir meðal annars að fólk sem er eldra en 60 ára eigi að láta bólusetja sig.
Bólusetningar gegn inflúensu hefjast í október, en Landlæknisembættið undirbýr nú kynningarátak vegna þeirra.

„Við viljum gjarnan að fólk sem er í þessum tilteknu áhættuhópum láti bólusetja sig,“ segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir. Til fólks í áhættuhópum segir hann til dæmis teljast alla yfir sextíu ára aldri og fólk með undirliggjandi sjúkdóma, auk þess sem heilbrigðisstarfsfólk eigi að láta bólusetja sig. „Inflúensan kemur alltaf einhvern tímann um veturinn.“

Framkvæmd bólusetningarinnar er á höndum heilsugæslunnar, en bóluefnið segir Haraldur á hverjum tíma lagað að þeim stofnum flensunnar sem von sé á.

Til hliðar er svo svínainflúensan svokallaða, en Haraldur býst ekki við að hún valdi vandkvæðum, vegna þess hve vel hafi gengið áður að bólusetja fólk fyrir henni.

„Sjálfsagt eigum við samt eftir að sjá eitthvað af þessum svínainflúensutilfellum,“ segir hann, en bætir um leið við að bóluefni gegn henni hafi nú verið tekið með í hefðbundna bólusetningu gegn inflúensu. „Hún nær líka yfir svínainflúensuna og það er bara partur af prógramminu.“

- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×