Innlent

Bílgreinin slegin aftur niður á botn

Bílgreinasambandið óttast að breytt kjör bílaleiga hægi á endurnýjun bílaflota landsmanna.
Bílgreinasambandið óttast að breytt kjör bílaleiga hægi á endurnýjun bílaflota landsmanna. Fréttablaðið/Arnþór
Stjórn Bílgreinasambandsins hvetur stjórnvöld eindregið til að draga til baka fyrirhugað afnám undanþágu frá vörugjöldum sem bílaleigur hafa notið við kaup á nýjum bílum.

„Fyrirséð er að kaupgeta bílaleiga mun dragast talsvert saman með ófyrirséðum afleiðingum fyrir bílainnflytjendur. Að öllu óbreyttu gætu bílakaup þeirra dregist saman um allt að 50 prósent sem þýðir að rekstrarumhverfi bílainnflytjenda er einnig ógnað,“ segir í ályktun sem stjórn Bílgreinasambandsins sendi frá sér í gær.

Bílaleigurnar er sagðar afar mikilvægur kaupandi nýrra bíla hér á landi og þannig hafa átt þátt í endurnýjun bílaflotans. Hraðari endurnýjun hafi svo aftur áhrif til lækkunar á koltvísýringsútblæstri frá bílaflotanum.

Bent er á að bílgreinin hafi mátt þola upp undir 90 prósenta samdrátt í sölu undanfarin ár. Þó hafi hún aðeins rétt úr kútnum á þessu ári og starfsmönnum verið fjölgað á ný. Enn sé þó langt í land með að eðlilegum markaði verði náð. „Högg í þessa veru mun því færa menn aftur á botninn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum,“ segir í ályktuninni, en undir hana ritar Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×