Innlent

Enn særa menn og drepa fálka

Þessi fálki barst Fjölskyldu- og húsdýragarðinum sár eftir byssuskot.
Þessi fálki barst Fjölskyldu- og húsdýragarðinum sár eftir byssuskot. mynd/FoHDG
Náttúrustofu Vesturlands barst á dögunum fálki sem fannst í Helgafellssveit á Snæfellsnesi. Hann drapst í búri sínu eftir umönnun í nokkurn tíma og í ljós kom að á hann hafði verið skotið úr haglabyssu og drapst hann af sárum sínum.

Um var að ræða ungan karlfugl í sæmilegum holdum og ekki grútarblautan. Við fyrstu skoðun sáust blæðingar í koki og auga, auk þess sem blóðblettir voru á fiðrinu.

Fálkinn var settur í búr og gefið að éta og drekka. Hann hresstist heldur og virtist vera að styrkjast en þann 16. september var hann dauður í búrinu.

Hræið var sent til nánari skoðunar á Náttúrufræðistofnun Íslands. Þar var fálkinn gegnumlýstur og komu þá í ljós 9 högl sem dreifð voru um skrokkinn, þar af eitt í höfðinu. Ljóst er því að skotið hefur verið á hann með haglabyssu og drógu áverkarnir hann til dauða.

Fálkastofninn er fremur lítill, aðeins 300-400 pör, og er algengastur í Þingeyjarsýslum. Fálkar eru alfriðaðir samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og reglugerð um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum.

Engu að síður fann Náttúrufræðistofnun högl í um fjórðungi þeirra fálka sem henni bárust á árunum 2005-2009, eins og fram kom í frétt á heimasíðu stofnunarinnar í sumar.

- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×