Innlent

Ráðherra vill leysa laumufarþegafaraldur

Hælisleitendur sem bíða afgreiðslu sinna mála hérlendis hafa margreynt að lauma sér í Ameríkuskip Eimskipafélagsins.
Hælisleitendur sem bíða afgreiðslu sinna mála hérlendis hafa margreynt að lauma sér í Ameríkuskip Eimskipafélagsins. Mynd/Eimskip
Innanríkisráðuneytið hefur óskað eftir því að siglingaverndarráð komi saman til að fara heildstætt yfir mál sem tengjast ítrekuðum tilraunum erlendra manna til að brjótast inn á hafnarsvæði Eimskips og um borð í skip þess.

„Innanríkisráðherra átti á mánudag samráðsfund með fulltrúum Eimskipafélags Íslands hf., Siglingastofnunar Íslands, ríkislögreglustjóra, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu og Faxaflóahafna,“ segir í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu sem kveður tilefni fundarins hafa verið að ræða ábendingar í bréfi Eimskipafélagsins um háttalag fyrrnefndra útlendinga.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu fyrr í þessum mánuði óttast Eimskip að bandarísk stjórnvöld kunni að grípa til þess að banna siglingar frá Íslandi til Bandaríkjanna komist laumufarþegar héðan alla leið vestur um haf. Um er ræða hælisleitendur sem hingað hafa komið en vilja komast til Ameríku.

„Ljóst er að um er að ræða þröngan hóp einstaklinga sem reynir ítrekað að brjótast inn á hafnarsvæðið í þeim tilgangi að komast um borð í skip vestur um haf. Niðurstaða fundarins varð sú að mikilvægt væri að þeir aðilar sem að málunum koma hafi náið samstarf um það hvernig leysa mætti þann vanda sem hér er við að etja,“ segir innanríkisráðuneytið. Kveðst ráðuneytið munu hafa samráð við hlutaðeigandi og Útlendingastofnun til að ákveða næstu skref þegar tillögur siglingaráðs liggja fyrir.

- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×