Innlent

Aðsókn í leikhús er svipuð og fyrir hrun

Ein vinsæl sýning getur snaraukið aðsókn í leikhús það leikárið. Leikhúsgestir á síðasta leikári voru um 417 þúsund talsins.
Ein vinsæl sýning getur snaraukið aðsókn í leikhús það leikárið. Leikhúsgestir á síðasta leikári voru um 417 þúsund talsins.
Alls voru settar upp 264 leiksýningar á landinu á síðasta leikári. Gestir voru um 417 þúsund, sem er svipað og leikárið þar á undan. Áhugaleikfélög settu upp 572 sýningar á síðasta leikári. Aðstaða þeirra hefur versnað í höfuðborginni.

Landinn vill sitt leikhús og efnahagshrunið hefur ekki sett stórt strik í reikninginn hvað aðsókn að leiksýningum varðar. Þegar tölur frá Hagstofu Íslands eru skoðaðar sést að aðsóknin dróst verulega saman leikárið 2008/9, en náði sér á strik strax árið eftir.

Alls voru 3.378 sýningar á 264 uppfærslum á síðasta leikári. Áhugaleikfélög blómstra, en 89 uppfærslur voru á vegum þeirra sem drógu að sér tæplega 39 þúsund gesti.

Ásta Gísladóttir, formaður áhugaleikfélagsins Hugleiks, segir að hrunið hafi ekki haft teljandi áhrif á aðsókn þar á bæ. Aðstaðan sé hins vegar vandamál.

„Aðstaða áhugaleikhúsa og lítilla leikhópa til að setja upp sýningar í Reykjavík hefur snarminnkað. Við notuðum Tjarnarbíó mjög mikið, en eftir að Reykjavíkurborg tók það í gegn og þar var settur upp sjálfstæður rekstur er leigan á því fjárhag okkar ofviða. Þá var Möguleikhúsið selt undir aðra starfsemi. Möguleikarnir á að setja upp stórar sýningar hafa því minnkað.“

Ásta segir að stórar og mannmargar sýningar dragi að fleiri gesti. Þá séu sýningar í þekktum rýmum meira áberandi og það dragi frekar gesti að.

„Við höfum þurft að sníða okkur stakk eftir vexti og setja upp verk sem eru minni um sig, í minni rýmum og þá fyrir færri áhorfendur. Þegar við höfum sett upp mannmargar og fjörugar sýningar hefur fleira fólk komið, en þegar við setjum upp minni sýningar með færri leikurum er aðsóknin í takt við það.“

Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri Borgarleikhússins, segir að hrunið hafi ekki haft neikvæð áhrif á aðsóknina. „Það kom því engin dýfa hjá okkur. Þvert á móti jókst aðsóknin árið 2008 og síðan hefur hún aukist skref fyrir skref. Síðustu leikár eru þau aðsóknarmestu í sögu leikhússins.“

Magnús segir að mestu máli skipti að tekist hafi að auka sölu áskriftarkorta til muna. „Korthöfum fjölgaði úr 500 í rúmlega ellefu þúsund hjá okkur og það skýrir að einhverju leyti betri aðsókn.“

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×