Innlent

Leiguverð íbúða hefur hækkað hratt

Biðlistar eftir stúdentaíbúðum hafa aldrei verið lengri en í haust.
Biðlistar eftir stúdentaíbúðum hafa aldrei verið lengri en í haust. Fréttablaðið/Pjetur
Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,3% í ágúst samkvæmt mælingum Þjóðskrár Íslands. Leiguverð hefur hækkað hratt á síðustu mánuðum eða um 6,8% síðustu þrjá mánuði og 10,6% sé litið til síðastliðinna tólf mánaða.

Í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka frá því í gær segir að þessi mikla hækkun leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu endurspegli sókn námsmanna í íbúðir áður en skólaárið hefst á haustin.

Greint var frá því í ágúst að eftirspurn eftir stúdentaíbúðum á höfuðborgarsvæðinu hefði aldrei verið meiri. Þannig voru ríflega þúsund stúdentar á biðlista eftir stúdentaíbúðum þegar úthlutun íbúða fyrir nýhafið skólaár lauk.

Þá jókst fjöldi leigusamninga mikið í ágúst eins og búast má við á þessum árstíma. Alls 616 leigusamningar voru gerðir á höfuðborgarsvæðinu í mánuðinum og fjölgaði þeim um 15% milli mánaða.

Loks er bent á það í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka að þrátt fyrir mikla ásókn stúdenta í leiguíbúðir á þessu ári hafi leigumarkaðurinn skroppið saman frá því í fyrra. Þannig hafa samtals verið gerðir 5.936 leigusamningar það sem af er ári. Nemur það 8,2% fækkun frá sama tímabili í fyrra.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×