Innlent

Efnahagslegt frelsi minnkað á Íslandi

Gjaldeyrishöftin eru ein helsta ástæða þess að Fraser-stofnunin telur efnahagslegt frelsi hafa minnkað hér á landi.
Gjaldeyrishöftin eru ein helsta ástæða þess að Fraser-stofnunin telur efnahagslegt frelsi hafa minnkað hér á landi. Fréttablaðið/GVA
Ísland er neðst norrænu ríkjanna á lista Fraser-stofnunarinnar sem raðar löndum eftir nokkrum mælikvörðum sem eiga að mæla efnahagslegt frelsi í löndunum.

Fjallað var um stöðu Íslands á listanum á málþingi á Grand Hóteli í Reykjavík í gær. Kanadíski hagfræðingurinn Michael Walker hélt fyrirlestur frá Kanada á málþinginu en fram kom í máli hans að Ísland hefði fallið nokkuð á listanum síðustu ár.

Að þessu sinni er Ísland í 65. sæti á listanum en fyrir fáum árum var Ísland á meðal efstu þjóða. Til samanburðar er Finnland í 9. sæti á listanum, Danmörk í því 16., Noregur í 25. sæti og Svíþjóð í 30. sæti.

Í fyrirlestri sínum fjallaði Walker um ástæður þess að Ísland hefur fallið niður listann. Benti hann á að víðtæk fjármagnshöft stæðu efnahagslegu frelsi fyrir þrifum. Þá sagði hann stjórn peningamála hafa verið slæma hér á landi auk þess sem óhagstæðar breytingar hefðu orðið á skattaumhverfi landsins. Loks sagði hann aukin ríkisumsvif síðustu ár, verulegar takmarkanir á frjálsum viðskiptum, svo sem með landbúnaðarvörur, og flókið tollakerfi skemma fyrir landinu.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×