Íslenski boltinn

Stjarnan væri stungin af ef flautað væri af í hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stjörnumenn fagna hér marki Garðars Jóhannssonar í bikarúrslitaleiknum en hann skoraði strax á sjöttu mínútu leiksins.
Stjörnumenn fagna hér marki Garðars Jóhannssonar í bikarúrslitaleiknum en hann skoraði strax á sjöttu mínútu leiksins. Fréttablaðið/daníel
Stjörnumenn hafa aðeins unnið einn af síðustu sex leikjum í Pepsi-deildinni og eiga ekki lengur möguleika á titlinum. Staðan væri allt önnur ef leikir sumarsins hefðu verið flautaðir af eftir 45 mínútur.

Stjörnumenn komust yfir í bikarúrslitaleiknum á móti KR og hafa oftar en ekki verið með flotta stöðu í hálfleik í sumar. Fótboltaleikir standa hins vegar í 90 mínútur og seinni hálfleikir sumarsins hafa séð til þess að Stjarnan fékk silfur í bikarnum og keppir ekki við FH og KR um Íslandsmeistaratitilinn.

Stjörnumenn hafa bara unnið einn af síðustu sjö leikjum sínum í deildinni og hafa fyrir vikið dottið niður í fimmta sæti. Þeir væru hins vegar með örugga forystu á toppnum hefðu allir leikir sumarsins verið flautaðir af í hálfleik.

Stjörnumenn eru aðeins búnir að vera tvisvar sinnum undir í hálfleik í Pepsi-deildinni í sumar og jafnteflisleikurinn á móti ÍBV í síðustu umferð var ellefti leikur Garðbæinga í sumar þar sem þeir komu með forystu inn í hálfleik. Ekkert lið hefur skorað meira á fyrstu fimmtán mínútum leikjanna og Stjarnan hefur skorað fyrsta markið í 65 prósent leikja sinna í sumar.

Það eru sjö leikir síðan Stjörnuliðið var undir í hálfleik en það gerðist síðast í 1-1 jafntefli liðsins á móti Breiðabliki 16. júlí síðastliðinn. Það er jafnframt síðasti leikurinn sem Garðbæingum tókst að vinna seinni hálfleikinn.

Fyrir sex leikjum áttu Garðbæingar möguleika á því að blanda sér af fullum krafti í baráttuna um Íslandsmeistaratitilinn en slæmir seinni hálfleikir hafa kostað liðið 8 stig í síðustu sex leikjum og það munar um minna í slagnum við FH, KR og ÍBV. Þrjú efstu liðin hafa öll gert miklu betur í seinni hálfleik en Stjörnumenn.

FH-ingar hafa sjö stiga forystu á toppi deildarinnar enda búnir að vinna tólf leiki í fyrstu 17 umferðunum en Hafnfirðingar leggja grunninn að flestum þeirra eftir hálfleiksræðu Heimis Guðjónssonar. FH-liðið hefur bara sjö sinnum verið yfir í hálfleik í sumar.

KR-ingar hafa aðeins unnið tvo af síðustu sjö fyrri hálfleikjum sínum sem hefur ekki hjálpað liðinu í baráttunni við FH og er án vafa ein af ástæðum þess að Vesturbæjarliðið hefur bara náð í 9 af síðasta 21 stigi í boði.

Eyjamenn eru aðeins í 8. sæti á þessum lista en þeir hafa skorað 20 af 28 mörkum sínum í sumar í seinni hálfleik sem hefur hjálpað liðinu mikið við að landa stigum í sínum leikjum.

Hér fyrir neðan má síðan sjá stöðuna í „fyrri hálfleiks deildinni".

Pepsi-deild karla ef flautað væri af í hálfleik

1. Stjarnan 37 stig (Markatala: 20-11)

2. FH 28 stig (14-7)

3. KR 25 stig (12-7)

4. Valur 25 stig (11-10)

5. Keflavík 23 stig (11-7)

6. Breiðablik 21 stig (5-5)

7. ÍA 19 stig (9-14)

8. ÍBV 19 stig (8-8)

9. Fram 19 stig (6-12)

10. Selfoss 16 stig (11-11)

11. Grindavík 16 stig (7-13)

12. Fylkir 16 stig (7-15)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×