Íslenski boltinn

Weston: Er miður mín en ekki reiður út í KR

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Weston útilokar ekki að spila með öðru félagsliði á Íslandi.
fréttablaðið/ernir
Weston útilokar ekki að spila með öðru félagsliði á Íslandi. fréttablaðið/ernir
„Fjárhagslegar aðstæður félagsins hafa breyst og ég er einn af launahæstu leikmönnum félagsins. Þeir þurfa að skera niður og spurðu mig að því hvort við gætum ekki komist að samkomulagi um starfslok," sagði varnarmaðurinn Rhys Weston sem er á förum frá KR.

Hann skrifaði undir tveggja ára samning við KR en hefur ekki þótt standa undir væntingum. Weston segir þó að hann sé ekki að fara af því hann hafi verið slakur heldur af því KR hafi ekki efni á honum.

„Þeir segja mér að ástæðan sé fjárhagsleg. Ég verð að trúa því sem þeir segja mér. Það eru samt engin leiðindi á milli okkar og ég skil vel að reksturinn sé erfiður."

Það mátti heyra á Weston að þessi málalok eru honum mikil vonbrigði.

„Auðvitað er ég mjög vonsvikinn enda hef ég notið mín á Íslandi. Ég vil ekkert endilega fara aftur heim en ég skil að félagið sé mikilvægara en einn leikmaður. Liðið hefur ekki staðið undir væntingum og hlutir þurfa að breytast. Ég er fórnarlamb þess því miður. Engu að síður óska ég KR alls hins besta."

Weston verður hér á landi fram yfir helgi og hann veit ekki hvort hann verður í leikmannahópi KR í bikarúrslitaleiknum.

„Ég vil vera á leiknum og hvetja strákana sama hvort það er úr stúkunni eða á bekknum. Rúnar verður að taka ákvörðun um þetta mál. Það veltur á því hvort mitt andlega ástand verði nógu gott til þess að spila. Ég er miður mín yfir þessu en ekki reiður. Ég skil hvernig boltinn er."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×