Íslenski boltinn

Mesta markaflóðið í meira en hálfa öld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
FH-ingarnir Atli Guðnason, Albert Ingason og Hólmar Örn Rúnarsson fagna hér Danny Thomas í 7-2 sigri á ÍA.
FH-ingarnir Atli Guðnason, Albert Ingason og Hólmar Örn Rúnarsson fagna hér Danny Thomas í 7-2 sigri á ÍA. Mynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson
FH-ingar hafa skorað 21 mark í síðustu fjórum leikjum sínum í Pepsi-deild karla. Lærisveinar Heimis Guðjónssonar unnu 7-2 sigur á Akranesi um síðustu helgi eftir að hafa gert 2-2 jafntefli á heimavelli við Stjörnuna, unnið 4-2 útisigur í Keflavík og 8-0 heimsigur á Fylki í leikjunum á undan. FH-liðið komst þar með í fámennan hóp liða sem bera ábyrgð á mestu markaflóðum íslensku fótboltasögunnar.

Mörg frábær fótboltalið hafa spilað í efstu deild undanfarna áratugi en ekkert þeirra náði að brjóta 20 marka múrinn í fjórum leikjum. Það þarf í raun að fara allar götur til þeirra tíma þegar goðsagnirnar Þórólfur Beck og Ríkharður Jónsson fóru fyrir sínum liðum í Vesturbænum og uppi á Akranesi til að finna annað eins markaflóð og hjá Hafnfirðingum síðustu fjórar vikur.

KR-liðið frá 1960 á metið en auk þess að skora 23 mörk í fjórum leikjum kemst liðið einnig í 3. sætið með 21 mark í fjórum leikjum fyrr sama sumar. Sumarið árið eftir settu KR-ingar einnig sams konar met með því að skora 22 mörk í fjórum leikum en ólíkt metinu frá 1960 þá entist það í aðeins eitt ár.

Þrátt fyrir þetta markaflóð fyrir 52 árum tókst KR-ingum þó ekki að landa titlinum á metárinu 1960. KR-liðinu tókst ekki að skora í 2 af síðustu 3 leikjum sínum. Skagamenn unnu úrslitaleik liðanna 1-0 og fögnuðu titlinum. FH-ingar hafa sýnt styrk sinn í þessum leikjum en það er löng leið fram undan að Íslandsmeistaratitlinum.

Ríkharður Jónsson og félagar í gullaldarliði Skagamanna eiga einnig tvö markaflóð inn á topp fimm en Skagamenn skoruðu 20 mörk í fjögurra leikja törn bæði sumarið 1955 og svo sumarið 1958.

Síðan þá er liðin meira en hálf öld og það hefur verið langt frá því að vera daglegt brauð að lið hafi nálgast inngöngu í 20 marka hópinn.

Tíu marka leikir Skagamanna frá 1973 (10-1 sigur á Blikum) og 1993 (10-1 sigur á Víkingum) eða framlag Valsara til Listahátíðar 1976 (17 mörk í 3 leikjum) voru ekki nóg til að komast í umræddan hóp. Öll tuttugu marka liðin fyrir afrek FH-inga voru lið sem fóru mikinn fyrir meira en hálfri öld.

Það er samt einna athyglisverðast í frammistöðu FH-inga undanfarna 28 daga að ógnunin kemur alls staðar að í FH-liðinu. Þrír af fjórum markahæstu mönnum FH-inga í þessari markatörn spila á miðjunni eða í vörninni og þar á meðal hefur bakvörðurinn Guðjón Árni Antoníusson skorað 4 mörk og lagt upp önnur tvö.

Atli Guðnason er samt í nokkrum sérflokki þegar kemur að sköpun marka FH í síðustu fjórum leikjum. Hann kom með beinum hætti að fjórum mörkum liðsins uppi á Skaga og hefur alls skorað 5 mörk og gefið 5 stoðsendingar í síðustu fjórum leikjum.

Mestu markaflóðin í efstu deild frá 1955 til 2012:
xxxxx xxxx xxxx
23 - KR 1960 (5-0, 6-0, 5-3, 7-0)

22 - KR 1959 (5-0, 7-0, 3-0, 7-1)

21 - FH 2012(8-0, 4-2, 2-2, 7-2)

21 - KR 1960 (6-0, 5-3, 7-0, 3-5)

20 - ÍA 1955 (8-0, 1-4, 6-1, 5-2)

20 - ÍA 1958 (2-2, 7-1, 5-1, 6-4)

19 - ÍA 1960 (3-5, 4-1, 7-1, 5-1)

19 - ÍA 1973 (10-1, 6-2, 0-1, 3-1)

19 - Valur 1976 (2-0, 6-1, 5-1, 6-0)

18 - ÍA 1959, KR 1961, ÍA 1993 (2)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×