Innlent

Arion átti Pennann í 39 mánuði

Penninn á og rekur verslanir Eymundsson, Pennans, Griffils og Islandia.
Penninn á og rekur verslanir Eymundsson, Pennans, Griffils og Islandia. fréttablaðið/gva
Eignabjarg ehf., dótturfélag Arion banka, seldi á mánudag Pennann á Íslandi ehf. til fjárfestahóps undir forystu Ingimars Jónssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóri Pennans. Hann starfaði hjá Pennanum þegar Gunnar Dungal átti hann, en Gunnar seldi Pennann í júní 2005.

Auk Ingimars leiða Ólafur Stefán Sveinsson og Stefán D. Franklín eigendahópinn. Kaupverðið fæst ekki uppgefið. Samkvæmt svari Arion banka við fyrirspurn Fréttablaðsins er það trúnaðarmál. Penninn á og rekur verslanir Eymundsson, Pennans, Griffils og Islandia. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Arion banki tók Pennann ehf. yfir í mars 2009 og stofnaði nýtt félag utan um rekstur hans. Um átta milljarða króna skuldir voru skildar eftir í þrotabúi gamla Pennans og um 1,2 milljarða króna skuld við Arion var breytt í nýtt hlutafé þegar nýja félagið var sett á fót.

Penninn hafði því verið í eigu bankans í 39 mánuði þegar hann var loks seldur á mánudag. Ekkert eitt félag hefur verið lengur í eigu banka eftir hrun. Samkvæmt lögum mega bankar einungis eiga fyrirtæki í óskyldri starfsemi í tólf mánuði án þess að leita undanþágu vegna þess hjá Fjármálaeftirlitinu. - þsj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×