Innlent

Hagnaður í fyrra nam 95 milljónum króna

Rannveig Gunnarsdóttir
Rannveig Gunnarsdóttir
Þótt Lyfjastofnun hafi farið fram úr fjárheimildum þá glímir stofnunin ekki við fjárhagsvanda, segir Rannveig Guðmundsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar. Ríkisendurskoðun sendi í byrjun vikunnar frá sér skýrslu þar sem sagt var áhyggjuefni hversu illa gengi að halda stofnuninni innan ramma fjárlaga.

„Stofnunin er nær alfarið rekin á sjálfsaflafé og fær ekki framlag úr ríkissjóði, en af því að við erum A-hluta stofnun þá eru tekjur okkar skilgreindar sem ríkistekjur,“ bendir Rannveig á.

Rannveig segir mjög erfitt að áætla tekjur stofnunarinnar á hverju ári því þær byggist að stórum hluta á fjölda umsókna sem lyfjafyrirtæki sendi stofnuninni og greiði gjald fyrir. Þannig geti tekjur og umsvif farið út fyrir þann ramma sem Lyfjastofnun er settur í fjárlögum. Lögbundnar skyldur stofnunarinnar og ákvæði fjárlaga rekist á. „Hallinn er því bara í bókunum. Í reynd var stofnunin 95 milljónir króna í plús um síðustu áramót.“

Að mati Rannveigar væri hægt að leiðrétta fjárheimildir stofnunarinnar í fjáraukalögum á ári hverju, en skynsamlegasta leiðin væri hins vegar ákveðinn aðskilnaður í rekstri stofnunarinnar. Fjárlög gætu þannig sagt til um markaðar tekjur til eftirlits og stjórnsýsluverkefna sem hingað til hafi ekki fylgt fjárframlag. „Síðan mætti mögulega gera þjónustusamning um önnur verkefni.“ - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×