Innlent

Ísland mátti ekki verða stjórnlaust

Ástandið í kringum stjórnarslitin í janúar 2009 var brothætt og skylda forsetans að tryggja að landið yrði ekki stjórnlaust, segir Ólafur Ragnar.
Ástandið í kringum stjórnarslitin í janúar 2009 var brothætt og skylda forsetans að tryggja að landið yrði ekki stjórnlaust, segir Ólafur Ragnar. Fréttablaðið/Anton
Ólafur Ragnar Grímsson taldi sér skylt að hugleiða hvernig hægt yrði að tryggja að landið yrði ekki stjórnlaust á hættutímum í kringum stjórnarslitin í janúar 2009 með því að huga að myndun utanþingsstjórnar.

Þetta kemur fram í færslu á kosningavef Ólafs. Þar skýrir hann ummæli sem hann lét falla í viðtali á Útvarpi Sögu.

Ólafur segir að ástandið hafi verið afar brothætt í kringum þann tíma sem slitnaði upp úr stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í janúar 2009.

Í því ástandi segist hann hafa talið mögulegt að stjórnmálaflokkarnir myndu ekki ráða við hlutverk sitt að mynda ríkisstjórn. „Því var það skylda forsetans að hugleiða með sjálfum sér hvernig þá væri hægt að tryggja að landið yrði ekki stjórnlaust á þessum hættutímum,“ skrifar Ólafur.

Hann segir vangaveltur sínar ekki hafa verið ræddar við nokkurn mann. Í ljós hafi komið í samfelldri fundarlotu með formönnum allra stjórnmálaflokka sólarhringinn eftir að stjórnin hafi beðist lausnar að hægt væri að mynda minnihlutastjórn sem varin yrði vantrausti, og að boðað yrði til kosninga innan fárra mánaða.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×