Innlent

Brýn þörf á mansals- og vændisdeild hjá lögreglu

Nauðsynlegt er að koma á fót deild innan rannsóknarlögreglunnar sem sér alfarið um vændi og mansal. Innanríkisráðherra mun beita sér í málinu. Segir ráðuneytið meðvitað um þrýsting grasrótarsamtaka.

„Það er alveg ljóst að lögreglan hefur þörf fyrir rannsóknarteymi sem einbeitir sér eingöngu að vændi og mansali,“ segir Stefán Eiríksson, lögreglustjóri í Reykjavík. Vændi- og mansalsmál flokkast ýmist sem kynferðisbrot eða skipulögð glæpastarfsemi innan lögreglunnar, en á hinum Norðurlöndunum eru sérstakar deildir helgaðar málaflokknum.

Að mati Stefáns og fleiri yfirmanna innan lögreglunnar hefur stofnunin hvorki fjármagn né mannskap til að rannsaka vændismál af fullum krafti, sem gerir að verkum að þau lenda oftar en ekki aftar í forgangsröðuninni.

Í aðgerðaáætlun ríkisins gegn mansali fyrir árin 2008 og 2009 segir að koma verði á fót sérfræðiteymi í kringum mansalsmál og formlegri yfirumsjón með málaflokknum. Ellefu ár eru síðan ríkið lét síðast gera úttekt á umfangi vændis á Íslandi.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ætlar að taka málið til skoðunar og reyna að beina frekari fjármunum til málaflokksins. „Það er í samræmi við þær hugmyndir sem við settum fram þegar eyrnamerktir fjármunir fóru til rannsókna á skipulagðri glæpastarfsemi,“ segir Ögmundur. „Það þarf að stokka upp í þessu, það er alveg ljóst.“

Ráðherra segir nauðsynlegt að við getum borið okkur saman við aðrar þjóðir að því er varðar baráttu gegn vændi og mansali. „Í samfélaginu er greinileg vitundarvakning gagnvart þessu böli og það á einnig við um lögregluna sem þekkir málin vel,“ segir hann. „Síðan eru grasrótarsamtök farin að þrýsta hressilega á og við erum mjög meðvituð um það innan ráðuneytisins.“

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, verkefnisstýra í Kristínarhúsi, sem er athvarf fyrir konur á leið úr vændi eða mansali, er sammála því að koma verði á sérteymi til að sjá um málaflokkinn. Hún segir það sína tilfinningu að vændi og mansal sé að aukast á Íslandi og brýnt að bregðast við þeirri þróun.

„Málaflokkurinn er hjá kynferðisbrotadeild og keppir við mál eins og nauðganir og kynferðisbrot gegn börnum,“ segir Steinunn. „Þá er auðvitað alveg augljóst að þau lenda aftar í forgangsröðinni. Það þarf að vera sérteymi sem sér um þessi mál.“- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×