Íslenski boltinn

Ekki víst að ég spili með gegn Selfossi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Haukur Páll Sigurðsson.
Haukur Páll Sigurðsson. Mynd/Valli
Valsmenn urðu fyrir miklu áfalli í upphafi leiksins gegn Fram á mánudag þegar prímus mótor liðsins, Haukur Páll Sigurðsson, meiddist.

Eins og sönnum harðjaxli sæmir harkaði hann af sér, kom inn á völlinn en varð að yfirgefa hann um tíu mínútum síðar vegna sársauka.

„Ég er svona skítsæmilegur. Ég er helaumur og hef verið betri," sagði Haukur Páll við Fréttablaðið í gær en Valsmenn náðu að vinna leikinn án hans.

Miðjumaðurinn meiddist á mjöðm en rannsóknir í gær leiddu í ljós að ekkert er brotið eða álíka. Hann ætti því ekki að vera of lengi frá.

„Að öllum líkindum er þetta bara mar sem kom af högginu. Það er í það minnsta jákvætt að það virðist ekki hafa komið neinn snúningur eða álíka á mjöðmina við þetta högg. Næstu dagar fara í það að vinna í þessu. Þetta ætti að jafna sig og vonandi kemst ég á lappir sem fyrst. Það er samt ekki víst að ég spili leikinn gegn Selfossi," sagði Haukur Páll en sá leikur fer fram á morgun.

Hann viðurkennir að það hafi verið súrt í broti að þurfa að yfirgefa völlinn svo snemma í fyrsta leik á Íslandsmóti eftir langt undirbúningstímabil.

„Þetta var ekki sú byrjun sem ég var að vonast eftir. Ég hugsaði um framhaldið á sumrinu eftir því sem leið á leikinn. Ég vildi ekki vera að skemma eitthvað strax með því að þjösnast á þessu. Fannst skynsamlegra að fara af velli og eiga möguleika á því að spila fleiri leiki," sagði Haukur og viðurkenndi að hafa hugsað það versta er hann meiddist.

„Sjúkraþjálfaranum fannst hafa komið snúningur á mjöðmina. Svo kom Björn Zoëga læknir. Hann sagði að ekkert væri brotið og því ætti ég að fara inn á aftur og láta reyna á þetta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×