Innlent

Yrði mikil þjónustuskerðing við neytendur

Móttökustöð Endurvinnslunnar við Knarrarvog gæti orðið fyrirmynd annarra endurvinnslustöðva verði samstarfi við Sorpu slitið.
Móttökustöð Endurvinnslunnar við Knarrarvog gæti orðið fyrirmynd annarra endurvinnslustöðva verði samstarfi við Sorpu slitið. Fréttablaðið/Pjetur
Áform Endurvinnslunnar um að hætta samstarfi við Sorpu um móttöku á endurvinnanlegum drykkjarumbúðum myndu skerða þjónustu við neytendur og gengju gegn hugmyndum um að draga úr notkun á einkabílum, segir Oddný Sturludóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og stjórnarformaður Sorpu.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær telja forsvarsmenn Endurvinnslunnar að fyrirtækið tapi tugum milljóna króna á ári vegna þess að neytendur komist upp með að oftelja fjölda umbúða sem skilað er til Sorpu.

„Að fækka móttökustöðvum úr sjö í þrjá yrði ofboðsleg þjónustuskerðing,“ segir Oddný. Hún vonast til þess að Endurvinnslan endurskoði ákvörðun sína um að slíta samstarfi sínu við Sorpu.

Endurvinnsla á dósum og flöskum er gjarnan það sem dregur fólk á stöðvar Sorpu, en þá notar það gjarnan ferðina til að fara með fleira sem hefur safnast upp, segir Oddný. Hún óttast að verði af þessari breytingu geti það dregið úr endurvinnslu.

Hætti Sorpa að taka á móti dósum og flöskum mun það hafa neikvæð áhrif á fjárhag fyrirtækisins, segir Oddný. Þá minnki einnig þörf fyrir starfsmenn, enda móttaka umbúðanna atvinnuskapandi.

Spurð hvort Sorpa geti brugðist við umkvörtunum Endurvinnslunnar um oftalningu umbúða segir Oddný að eflaust sé hægt að finna leiðir til að bregðast við því. Hvað sem því líði sé ákvörðun stjórnenda Endurvinnslunnar afar óheppileg og mikil afturför í þjónustu við íbúa höfuðborgarsvæðisins. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×