Innlent

Telja auðlindagjald munu fimmfaldast

Vestfirsk fyrirtæki greiddu 255 milljónir í auðlindagjald í fyrra. Ísfirðingar segja ekki hægt að samþykkja margföldun á gjaldinu.
Vestfirsk fyrirtæki greiddu 255 milljónir í auðlindagjald í fyrra. Ísfirðingar segja ekki hægt að samþykkja margföldun á gjaldinu. Mynd/Halldór Sveinbjörnsson
Meirihluti atvinnumálanefndar Ísafjarðarbæjar segir verulega annmarka á frumvarpi sjávarútvegsráðherra um stjórn fiskveiða. 87 prósent af aflaheimildum séu á landsbyggðinni og breytingarnar komi því harðast niður þar.

„Á Vestfjörðum var auðlindagjaldið á síðasta ári 255 milljónir. Með nýja frumvarpinu verður það hins vegar um 1,4 milljarðar, þar af 1,2 á norðanverðum Vestfjörðum,“ segir atvinnumálanefndin og vísar þar í útreikninga Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða.

Svo mikla aukningu á skattheimtu af burðarfyrirtækjum á svæðinu sé ekki hægt að samþykkja. „Sérstaklega ekki meðan ótryggt er að nokkuð af þeim tekjum skili sér aftur til uppbyggingar í Ísafjarðarbæ. Eins er engin vissa fyrir því að það sem skilar sér vegi upp það tap sem sveitarfélög verða fyrir vegna þess útsvars sem tapast,“ segir atvinnumálanefndin. „Líklegt er að störfum muni fækka enn frekar en orðið er og laun lækka hjá sjómönnum og fiskvinnslufólki, sem hafa mun áhrif á útsvar sveitarfélaga. Þá mun draga verulega úr fjárfestingu fyrirtækja í greininni með tilheyrandi afleiðingum fyrir minni þjónustufyrirtæki.“

Þá segir nefndin ekki sátt vera um skerðingu á kvóta núverandi handhafa, til að mynda potta fyrir nýliða. „Þar er í einhverjum tilfellum verið að hygla áhugamönnum á kostnað atvinnumanna,“ segir nefndin sem hins vegar kveður væntanlega hægt að ná „einhverri sátt“ um þær greinar frumvarpsins er varða nýtingarsamninga og pottafyrirkomulag. „Með nýtingarsamningum til 20 ára, og möguleika á framlengingu, ættu fyrirtæki að geta skipulagt sig til framtíðar.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×