Íslenski boltinn

Þetta tilboð var brandari

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Skúli fagnar í leik með kr Hann hefur vakið áhuga erlendis en fer ekki á gjafverði til Noregs.fréttablaðið/anton
Skúli fagnar í leik með kr Hann hefur vakið áhuga erlendis en fer ekki á gjafverði til Noregs.fréttablaðið/anton
Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, segir lánstilboð Sogndal í Skúla Jón Friðgeirsson hafa verið hlægilegt. Honum líst mjög illa á þá þróun að norsk lið vilji fá bestu íslensku strákana lánaða fyrir litlar upphæðir.

Það virðist vera orðin lenska hjá norskum knattspyrnufélögum að vilja fá bestu leikmenn Pepsi-deildarinnar lánaða. Nú þegar er norska liðið Start búið að fá Matthías Vilhjálmsson frá FH og Guðmund Kristjánsson frá Breiðabliki að láni. Þeir eru tveir af betri mönnum deildarinnar.

Nú síðast sendi norska úrvalsdeildarliðið Sogndal lánstilboð til KR vegna varnarmannsins Skúla Jóns Friðgeirssonar.

„Tilboðið frá þeim var brandari. Maður nánast sigldi inn í helgina með bros á vör því það var svo hlægilegt," sagði Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, en KR-ingar sendu Sogndal gagntilboð sem var á allt öðrum nótum.

Kristni líst ekki á þessa þróun sem er að verða að Norðmenn vilji fá bestu menn landsins að láni.

„Ég hef ákveðnar áhyggjur af þessu án þess að ég viti hvað FH og Blikar fengu. Við erum ekki að fara að taka þátt í þessum leik. Þetta er bara brandari. Það er ekki hægt að orða það öðruvísi. Níu ára sonur minn hefði getað svarað því til baka mjög pent," sagði Kristinn og bætti við: „Ef þetta er nýjasta útspilið þeirra að nálgast íslensk lið með það að leiðarljósi að fá leikmenn leigða þá tel ég þá vera á rangri leið. Þetta pirrar mann."

Hafi FH og Blikar leigt sína menn á frekar lága upphæð og ætli svo að taka útlendinga til að fylla þeirra skarð má gera ráð fyrir að ágóðinn á endanum sé lítill eða enginn.

„Sogndal vildi líka fá mögulegan forkaupsrétt. Þá er ákveðin tala negld niður. Segjum að leikmaður slái svo í gegn að fleiri lið komi inn og eru til í að borga mun meira. Þá lenda íslensku liðin í því að vera föst í minni upphæð sem áður var búið að semja um. Ef leikmaður getur ekkert þá kemur viðkomandi heim og lítið sem íslensku liðin græða á því. Þetta er ekki mjög spennandi að mínu mati."

Kristinn segir að þess utan hafi KR ekki neinn áhuga á að missa Skúla sem sé lykilmaður í þeirra liði.

„Við höfum ekki áhuga á að lána eða leigja hann. Auðvitað erum við samt til í að skoða ef það kemur áhugavert tilboð. Engu að síður er spennandi tímabil fram undan hjá okkur. Þurfum að verja titla og erum í Evrópukeppni. Eðlilega viljum við hafa okkar bestu menn í því verkefni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×