Innlent

Rannsaka grun um barnavændi

Fólkið hótaði manninum meðal annars með blóðugri sprautunál.
Fólkið hótaði manninum meðal annars með blóðugri sprautunál.
Lögregla rannsakar nú hvort karlmaður á sextugsaldri, sem á sunnudagskvöld var rændur af pilti og stúlku undir tvítugu, hafi falast eftir því að kaupa vændi af stúlkunni. Hún er einungis sextán ára. Maðurinn tilkynnti um ránið til lögreglu á sunnudagskvöld. Hann hafði boðið stúlkunni í heimsókn en þegar hann hleypti henni inn ruddist inn með henni piltur vopnaður hnífi.

Ungmennin hótuðu manninum með hnífnum og blóðugri sprautunál og rændu af honum peningum, sjónvarpi og síma. Lögregla hefur nú upplýst ránið og ungmennin, sextán ára stúlka og átján ára piltur, hafa játað sök. Sjónvarpið er komið í leitirnar en símanum mun hafa verið hent. Málinu er þó ekki lokið þar með, að sögn Árna Þórs Sigmundssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns. Maðurinn hafði kynnst stúlkunni á stefnumótalínu og í kjölfarið voru þau í frekari samskiptum á spjallrás áður en þau hittust heima hjá manninum.

Árni segir að samskipti manns á þessum aldri við svo unga stúlku gefi tilefni til að rannsaka hvort mögulega hafi verið um vændi að ræða. Í því skyni hafi verið lagt hald á tölvur þeirra beggja og innihald þeirra verði nú kannað. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×