Innlent

Kópavogur friðlýsir hluta Skerjafjarðar

Guðrún Pálsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, og Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.
Guðrún Pálsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, og Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, hefur staðfest friðlýsingu Kópavogsbæjar á þeim hluta Skerjafjarðar sem er innan bæjarmarka sveitarfélagsins. Þá hafa fulltrúar Kópavogsbæjar, Náttúrufræðistofu Kópavogs og Umhverfisstofnunar gert með sér samning um umsjón og rekstur hins friðlýsta svæðis sem nær til fjara og grunnsævis fjarðarins.

Markmiðið með friðlýsingunni er að vernda lífríki við ströndina, í fjöru og á grunnsævi. Jafnframt er stefnt að því að vernda útivistar- og fræðslugildi svæðisins. Öll önnur sveitarfélög við Skerjafjörð, utan Reykjavíkur, vinna nú að friðlýsingu fjarðarins. Garðabær reið á vaðið og friðlýsti þann hluta fjarðarins sem er innan bæjarmarka Garðabæjar í október 2009. Þá hafa fulltrúar Álftaness undirritað viljayfirlýsingu um friðlýsingu svæðisins.

Hjá Reykjavíkurborg er vilji til þess að tengja vinnuna við endurskoðun á aðalskipulagi sem kynna á í sumar. Þá spila vangaveltur um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar inn í ákvörðunina sem og hugmyndir um vegtengingu yfir fjörðinn.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×