Lífið

Íslenskir flytjendur fá 50 þúsund fyrir Airwaves

„Þetta eru áherslubreytingar og vonandi finnst fólki betra að spila á hátíðinni núna,“ segir Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Airwaves.
„Þetta eru áherslubreytingar og vonandi finnst fólki betra að spila á hátíðinni núna,“ segir Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Airwaves. fréttablaðið/arnþór
Forsvarsmenn tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves hafa ákveðið að greiða 70 til 75 íslenskum flytjendum fimmtíu þúsund krónur fyrir að koma þar fram. Þessu var greint frá á kynningarfundi í Norræna húsinu.

Hingað til hefur mun færri íslenskum hljómsveitum verið greitt fyrir að spila á hátíðinni. Aðeins tvær fengu greitt í fyrra en tuttugu árið 2010. „Þetta eru áherslubreytingar og vonandi finnst fólki betra að spila á hátíðinni núna,“ segir Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Airwaves.

Hljómsveitum og tónlistarmönnum á hátíðinni verður fækkað um 20% frá síðasta ári. Samtals koma fram 180 flytjendur á Airwaves í haust, þar af verða 125 til 130 íslenskir. Til samanburðar stigu um 200 flytjendur á svið í fyrra, þar af um 180 íslenskir.

„Þetta er fyrst og fremst útflutningshátíð íslenskrar tónlistar. En við þurfum alltaf erlend atriði sem selja fleiri miða,“ segir Grímur. Hann bætir við að til þess að laða fleira fólk að hátíðinni sé einnig eytt peningum í að fá hingað erlenda blaðamenn og fólk úr tónlistarbransanum.

Gert er ráð fyrir að fá hingað íslenska listamenn sem eru með aðsetur erlendis og verður hálf milljón króna lögð í það verkefni. Einnig verður íslenskum flytjendum í auknum mæli leyft að spila tvívegis á hátíðinni. Allir listamenn fá jafnframt eitt armband á hátíðina, eina máltíð og þrjá drykki. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.