Innlent

Orð um þorskkvóta misskilin

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir menn hafa lesið vitlaust í orð hans í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudag um horfur í sjávarútvegi. „Ástandið í þorskinum er gott og þar mun kvótinn vera aukinn í vor – aftur,“ sagði Steingrímur í viðtali við þáttastjórnandann Sigurjón M. Egilsson um horfurnar í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar.

Þetta hefur í fréttum verið haft til marks um það að óvæntar fréttir væru boðaðar um veiðar á þorski – mikilvægustu fisktegund íslensks sjávarútvegs.

„Ég var ekki að boða neitt slíkt, heldur að vitna til þess að horfurnar væru jákvæðar. Ákvörðun um þorskkvóta komandi fiskveiðiárs verður hins vegar tekin í vor- eða sumarbyrjun,“ segir Steingrímur.

Ráðherra segir að líklegt megi telja að þorskkvóti verði aukinn á næsta fiskveiðiári, ef horft er til niðurstaðna úr rannsóknum Hafrannsóknastofnunar og þeirrar ráðgjafar sem var kynnt í júní síðastliðnum. „Ég setti nú þessa aflareglu í samband aftur þegar ég var í ráðuneytinu 2009. Hún hefur gefist vel og við erum ekkert að fara út af sporinu með það,“ segir Steingrímur.

Hér vísar ráðherra til þess að í júní 2009 var aflaregla tekin upp en hún gildir fyrir næstu fimm ár. Með henni er stefnt að veiðum á 20% af þorski 4 ára og eldri. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×