Innlent

Sautján tilkynnt um ofbeldi innan kaþólsku kirkjunnar

Fyrrum stjórnendur Landakotsskóla og sumarbúða á vegum kaþólsku kirkjunnar hafa verið borin þungum sökum um kynferðisbrit, einelti og annað ofbeldi.
Fréttablaðið/GVA
Fyrrum stjórnendur Landakotsskóla og sumarbúða á vegum kaþólsku kirkjunnar hafa verið borin þungum sökum um kynferðisbrit, einelti og annað ofbeldi. Fréttablaðið/GVA
Sautján manns hafa gefið sig fram undir nafni til rannsóknarnefndar kaþólsku kirkjunnar vegna meints ofbeldis sem átti sér þar stað fyrir nokkrum áratugum. Enginn kennari eða aðstandandi gefið sig fram.

Sautján hafa gefið sig fram undir nafni til rannsóknarnefndar kaþólsku kirkjunnar og greint frá ofbeldi af hálfu fyrrverandi starfsmanna kirkjunnar. Þó hafa enn fleiri haft samband án þess að greina frá nafni. Um er að ræða fullorðna einstaklinga í öllum tilvikum.

Fólkið var annaðhvort nemendur við Landakotsskóla eða gestir í sumarbúðunum Riftúni í Ölfusi sem voru reknar af kirkjunni.

Rannsóknarnefndin var sett á fót eftir að ásakanir um gróft kynferðislegt ofbeldi, einelti og vanrækslu á hendur fyrrverandi skólastjóra Landakotsskóla fóru að berast frá nemendum skólans og greint var frá í Fréttatímanum. Nefndin á að rannsaka starfshætti og viðbrögð kaþólsku kirkjunnar á Íslandi vegna ásakananna. Greint hefur verið frá því að séra George, sem var skólastjóri Landakotsskóla, og Margrét Müller, þýsk kennslukona við skólann, séu sér í lagi borin þungum sökum um gróft ofbeldi af fyrrum nemendum og gestum sumarbúðanna.

Rannsóknarnefndin auglýsti eftir viðmælendum vegna málsins á síðasta ári og rann frestur til að setja sig í samband við hana út 1. desember. Enginn kennari, aðstandandi nemanda eða foreldri hefur gefið sig fram, heldur einungis fólk sem telur sig hafa verið beitt einhvers konar ofbeldi.

Hjördís Hákonardóttir, fyrrverandi hæstaréttarlögmaður og formaður nefndarinnar, segist gjarnan vilja heyra í þeim sem kunna að hafa séð ástæðu til þess að tala við stjórnendur í Landakotsskóla eða stjórn kirkjunnar vegna líðan barna þar fram til ársins 2005.

„En engir aðstandendur eða kennarar hafa gefið sig fram," segir hún. „Okkar rannsóknarefni eru viðbrögð kirkjunnar og það væri auðvitað gagnlegast að heyra í þeim sem hefðu talið að eitthvað óeðlilegt væri í gangi, jafnvel kvartað við stjórnendur eða látið vita." Hjördís bætir við að í ljósi þess hversu langur tími hefur liðið frá meintum brotum, séu margir aðstandendur nemenda og kennarar látnir.

Á næstu dögum mun nefndin ræða við starfsmenn kirkjunnar og skólans eftir því sem tilefni er til og kanna hvort einhver frekari gögn er að finna sem geta gagnast rannsókninni. Stefnt er að því að skila af sér skýrslu næsta haust.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×