Innlent

Nýtt kvótafrumvarp lagt fram á næstunni

Líkt og oft áður lýstu þingmenn gjörólíku samfélagi, eftir því hvort þeir styðja stjórnina eða ekki. Steingrímur J. Sigfússon sagði áhyggjuefni hve lítil hugmyndafræðileg endurnýjun hefði átt sér stað hjá þeim sem áður réðu hér ferðinni.
Líkt og oft áður lýstu þingmenn gjörólíku samfélagi, eftir því hvort þeir styðja stjórnina eða ekki. Steingrímur J. Sigfússon sagði áhyggjuefni hve lítil hugmyndafræðileg endurnýjun hefði átt sér stað hjá þeim sem áður réðu hér ferðinni. fréttablaðið/gva
Breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu verða lagðar fram á næstu vikum. Forsætisráðherra telur árangur hafa náðst í efnahagsmálum og vill þjóðaratkvæði um nýja stjórnarskrá. Stjórnarandstaðan gagnrýnir lítinn efnahagsbata.

Breytingar á stjórnarráðinu munu skila öflugri ráðuneytum og betri þjónustu í viðkomandi málaflokkum, að mati Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Alþingi hófst í gær og umræður voru um skýrslu forsætisráðherra.

Jóhanna sagði stóra aðila í atvinnulífinu, eins og ferðaþjónustuna, hafa kallað eftir breytingum á æðstu stjórn þess málaflokks. Hún boðaði stofnun nýs atvinnuvegaráðuneytis sem styrkja mundi þjónustuna við atvinnulíf. Þá yrði nýskipan í orku- og auðlindamálum innleidd með nýju umhverfis- og auðlindaráðuneyti sem starfar eftir nýrri orkustefnu. Áherslan á umhverfismál yrði meiri eftir breytingarnar.

Við stofnun Velferðarráðuneytis og innanríkisráðuneytis fækkaði ráðuneytisstjórum um tvo og skrifstofustjórum um 13 og sagði Jóhanna að skrifstofukostnaður væri tugmilljónum króna lægri eftir breytingarnar. Góð reynsla væri því af sameiningum ráðuneyta.

Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, boða breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu á næstu vikum.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, dró í efa að góð reynsla væri af jafn stóru ráðuneyti og Velferðarráðuneytinu. Hann sagði breytingar á stjórnarráðinu einkennast af hringlandahætti. Allir vissu að brotthvarf Jóns Bjarnasonar úr ríkisstjórn væri vegna þess að hann hefði ekki sýnt samstarfsvilja í viðræðum við Evrópusambandið. Upp á eftirmann hans, Steingrím J. Sigfússon, stæði að lýsa því hvernig hann hefði lofað því að haga sér með öðrum hætti í þeim efnum.

Bjarni sagði breytingar á skattkerfinu hafa verið til skaða. „Ég stend ekki hér til að segja að hvergi hafi þokast á neinu sviði. Ég er að segja að það sé hægt að gera svo miklu, miklu betur,“ sagði Bjarni, og vísaði í efnahagstillögur Sjálfstæðisflokksins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sakaði Steingrím um að hafa margoft gripið inn í rekstur fjármálafyrirtækja, án umræðu á Alþingi. Það hefði hann gert í skjóli neyðarlaganna, en endurskoðun þeirra, sem átt hefði að fara fram fyrir árslok 2009, hefði aldrei farið fram.

Sigmundur sagðist sammála um að tækifærin á Íslandi væru gríðarlega mikil. „Ef rétt er haldið á málum má nýta þau tækifæri vel. Til þess þarf breytta stefnu og breytta ríkisstjórn.“

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×