Innlent

Vökum yfir líðan barna okkar

Yfirmenn göngudeildar BUGL, þær Linda Kristmundsdóttir hjúkrunardeildarstjóri og Guðrún Bryndís Guðmundsdóttir yfirlæknir.
Yfirmenn göngudeildar BUGL, þær Linda Kristmundsdóttir hjúkrunardeildarstjóri og Guðrún Bryndís Guðmundsdóttir yfirlæknir. fréttablaðið/stefán
„Það hefur ekkert foreldri meðfædda vitneskju um hvernig bregðast eigi við áfallastreitu barna, en það er okkar hlutverk að miðla, fræða og kenna, og það gerum við með ráðstefnum sem þessari og því að setja inn á heimasíðu okkar gagnlegar upplýsingar sem foreldrar og forráðamenn barna geta nýtt sér,“ segir Linda Kristmundsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL).

Stofnunin stendur fyrir árlegri ráðstefnu sinni í Laugardalshöll á morgun, en viðfangsefnið nú ber yfirskriftina Börn og áföll.

„Við munum ræða áföll barna í víðri skilgreiningu,“ útskýrir Linda. „Aðalfyrirlesari verður bandaríski sálfræðingurinn Robbie Alder-Tapia sem hefur sérhæft sig í áfallastreitumeðferð barna og verið lærimeistari okkar á BUGL í sama málaflokki. Annað áhugavert erindi er um áfallamiðaða hugræna atferlismeðferð fyrir börn með áfallastreitu, en báðar þessar meðferðir eru gagnreyndar, vísindalega rannsakaðar og kunnar fyrir að skila árangri,“ upplýsir Linda.

Hún segir ráðstefnuna einkum höfða til starfsfólks í breiðri þjónustu við börn og unglinga, bæði í heilbrigðisstétt og skólakerfinu.

„Nú í fyrsta sinn verðum við með málstofur þar sem við fáum til liðs við okkur háskólanema- og kennara sem rannsaka fjölbreytt málefni sem tengjast börnum, eins og einelti og ofbeldi í fjölskyldum. Með því tengjum við loks saman rannsóknarsamfélagið og heilbrigðisstéttina, sem er verulega gagnlegt,“ segir Linda.

BUGL hefur umsjón með sérhæfðustu og erfiðustu málum sem snúa að geðheilbrigði barna og unglinga.

„Áfalli barns fylgir ekki endilega áfallastreita eða áfallastreituröskun, sem er sjúkdómsgreint viðvarandi kvíðaástand í kjölfar áfalls. Áfall getur verið einn yfirþyrmandi atburður, en líka margir; allt frá slysi upp í langvarandi ofbeldi. Áfall fer eftir eðli atburða, eins og þegar barn er króað af og barið, þá upplifir það að lífi þess sé ógnað, sem er að sjálfsögðu áfall og getur þróað einkenni áfallastreitu,“ útskýrir Linda og nefnir algeng einkenni áfallastreituröskunar.

„Þá er barnið órólegt, kvíðið, með svefntruflanir, einbeitingarskort, forðast ákveðnar aðstæður og endurupplifir atburðinn í jafnvel hvaða aðstæðum sem er. Áfallinu fylgir því talsverð röskun á lífi barns.“

Linda segir starfsfólk BUGL hafa undanfarin tvö ár lagt mikla vinnu í að þekkja úr og meðhöndla börn sem hafa upplifað áföll.

„Forvarnir eru þó alltaf besta vörnin og því þurfa foreldrar að vera í eins góðu sambandi við börn sín og þeir geta. Þeir þurfa að vera vakandi yfir líðan þeirra og hegðunarmynstri, og í það góðu sambandi að barnið eigi auðvelt með að ræða allt sem á því hvílir. Þá verða foreldrar að þekkja daglegar aðstæður barna sinna, vita hverjir eru vinir þeirra, hvað er að gerast í skólanum og fylgjast vel með fyrrnefndum einkennum. Þá er auðvelt að leita ráðlegginga og hjálpar hjá heimilislækni barnsins, skólasálfræðingi eða kennara til að byrja með. Af öllu þessu hlýst svo margt gott í framhaldinu því foreldrar geta lagað svo margt í samvinnu við börnin sín.“

@Matur_undirskrift:thordis@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×