Innlent

Grunaðir eru alls ekki allir ákærðir

Ólafur Þór Hauksson vísar því á bug að embætti hans skreyti menn með sakborningsstimpli að óþörfu. Fréttablaðið/stefán
Ólafur Þór Hauksson vísar því á bug að embætti hans skreyti menn með sakborningsstimpli að óþörfu. Fréttablaðið/stefán
Hvað þýðir það að hafa réttarstöðu sakbornings í rannsóknum sérstaks saksóknara?

Fleiri en hundrað einstaklingar hafa réttarstöðu sakbornings í rannsóknum sérstaks saksóknara á málum tengdum bankahruninu. Sumir þeirra eru grunaðir í fleiri málum en einu.

Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum var Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, sem var yfirmaður hjá Kaupþingi fyrir hrun og hefur nú réttarstöðu sakbornings, nýverið ráðinn framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar.

Stjórnarformaður Atvinnuþróunarfélagsins hefur sagt að Þorvaldur Lúðvík sé saklaus uns sekt er sönnuð eins og aðrir og því sé ekkert athugavert við ráðninguna.

Alþingismenn hafa nokkrum sinnum beint þeirri fyrirspurn til sérstaks saksóknara hversu margir hafa réttarstöðu sakbornings í rannsóknum hans. Síðasta svar barst í mars í fyrra og var talan þá 216.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir þá tölu ekki segja alla söguna, því þá séu þeir margtaldir sem komi við sögu í fleiri málum en einu. Sé hver einstaklingur einungis talinn einu sinni lækki talan um rúmlega helming. Engu að síður hafi sakborningum fjölgað verulega síðan þá, einkum í síðustu rassíu tengdri Glitni í lok árs.

Embættinu hefur gjarnan verið borið á brýn að stimpla menn sakborninga af litlu tilefni. Þetta segir Ólafur Þór ekki standast skoðun.

„Það er látið með þetta úti í samfélaginu eins og við séum að skreyta menn með þessu að óþörfu, en við teljum að við séum bara að fylgja lögunum,“ segir hann. „Við erum algjörlega meðvituð um að það sé þungbært að vera í þeirri stöðu að vera sakborningur en við sjáum ekki annað en að lögin setji okkur ákveðnar leikreglur í þeim efnum.“

Hann bendir á að lög kveði á um að þeir skuli fá réttarstöðu sakbornings sem viss grunur sé um að hafi átt aðild að refsiverðri háttsemi. Ekki þurfi að vera uppi rökstuddur grunur um að þeir hafi sjálfir gerst sekir um afbrot. Þetta sé skýrt í lögum.

„Í okkar málum erum við oft með fjármálagerninga sem ganga gjarnan á milli mjög margra manna innan fjármálastofnunar áður en þeir eru á endanum afgreiddir, þannig að það eru mjög margir sem eiga aðild að verknaðinum með einhverjum hætti,“ segir hann.

Alls ekki allir grunaðir eru á endanum ákærðir fyrir afbrot. Ólafur bendir á svokallað Exeter-mál, þar sem tólf höfðu réttarstöðu sakbornings við lok rannsóknar en einungis þrír voru ákærðir.

Enn fremur segir Ólafur að réttarstaða sakbornings færi mönnum aukin réttindi við skýrslutökur. „Þeir þurfa þá ekki að fella sök á sjálfa sig með framburði, þeim er ekki gerð refsing þó að þeir beri rangt og eiga rétt á að hafa viðstadda verjendur,“ segir hann.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×