Fótbolti

Maradona ósáttur við uppsögnina | Al Wasl býður til kveðjuhátíðar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maradona bregður á leik.
Maradona bregður á leik. Nordicphotos/Getty
Diego Maradona segist vonast til þess að funda með stjórn Al Wasl fljótlega og komast að annarri niðurstöðu en þeirri sem tekinn var í vikunni um að vísa honum úr starfi.

Maradona skrifaði þetta á heimasíðu sína (www.diegomaradona.com) í gær en fyrr um daginn var honum vikið úr starfi knattspyrnustjóra félagsins sem staðsett er í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

„Það var alltaf ósk mín að dvelja áfram í landinu sem tók svo vel á móti mér. Ég stend í þakkarstund við sjeikinn fyrir að hafa gefið mér tækifæri til þess að þjálfa lið í Sameinuðu arabísku furstadæmunum," skrifaði Maradona sem virðist þó ekki tilbúinn að taka uppsögninni þegjandi og hljóðalaust.

„Því miður sendi félagið frá sér yfirlýsingu sem ég er ekki sammála því markmið mitt var að halda áfram að stýra Al Wasl. Ef félagið hefur ekki möguleika á að kaupa leikmenn til félagsins af fjárhagslegum ástæðum getum við rætt það við stjórnina og leitað lausna," sagði Maradona en öllu þjálfarateymi hans var sömuleiðis sagt upp störfum.

Maradona segist vonast til þess að funda fljótlega með stjórninni og sé nokkuð viss um að það vilji hún líka og lausn á málinu finnist.

Í yfirlýsingu frá félaginu kemur fram að það vilji blása til kveðjuhátíðar til heiðurs Maradona. Það sé til marks um hið einstaka og trausta samband sem ríki á milli félagsins og Maradona.

„Við höfum ekki tímasett viðburðinn en bíðum svars frá Maradona til að geta ákveðið tíma," er haft eftir Mohammed bin Dokhan, aðstoðarstjórnarformanni Al Wasl. Maradona hefur að hans sögn ekki svarað boðinu.

Al Wasl vann ekki til verðlauna á síðasta tímabili sem var það eina undir stjórn Maradona. Liðið hafnaði í áttunda sæti í deildinni.


Tengdar fréttir

Maradona rekinn frá As Wasl

Diego Maradona hefur verið vikið úr starfi sem knattspyrnustjóri Al Wasl í Dubai Sameinuðu arabísku furstadæmunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×