Enski boltinn

Bellamy verður með á móti Cardiff | Ætlar ekki að fagna ef hann skorar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Craig Bellamy.
Craig Bellamy. Mynd/Nordic Photos/Getty
Craig Bellamy, framherji Liverpool, verður klár í úrslitaleik deildabikarsins á móti Aroni Einari Gunnarssyni og félögum í Cardiff City sem fer fram á Wembley á sunnudaginn.

Velski landsliðsmaðurinn var frá í 6-1 bikarsigri Liverpool á Brighton & Hove Albion vegna bakmeiðsla og það var óvissa í herbúðum félagsins um að hann gæti yfir höfuð spilað á móti sínum gömlu félögum um næstu helgi.

Nú lítur þetta hinsvegar allt betur út. „Ég er í góðu lagi. Ég fékk bakverki eftir að ég kom inn á á móti Manchester United og þeir versnuðu síðan í vikunni á eftir. Ég er miklu betri núna og mæti á æfingu á fimmutdaginn," sagði Craig Bellamy við Guardian.

Bellamy er harður á því að hann ætlar ekki að fagna skori hann á móti sínum gömlu félögum í Cardiff City.

„Það er pottþétt að ég mun ekki fagna og ég reyndi heldur ekki að fagna þegar ég skoraði á móti Manchester City. Ég verð samt að komast inn á völlinn áður en ég get farið að hugsa um að skora mörk," sagði Bellamy.

„Þetta verður svolítið skrýtið því þetta verður í fyrsta sinn sem ég spila á móti þeim. Ef ég er alveg hreinskilinn þá hef ég ekkert verið að sækjast eftir að kynnast því að mæta þeim enda er pabbi mikill stuðningsmaður Cardiff. Ég setti það sem markmið að spila með þeim og ég er búinn að ná því," sagði Bellamy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×