Innlent

Í gæsluvarðhald tveimur dögum eftir kæru

Stúlkan fór sjálf á lögreglustöðina og kærði stjúpföður sinn.
Stúlkan fór sjálf á lögreglustöðina og kærði stjúpföður sinn.
Maðurinn sem var dæmdur í átta ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni var úrskurðaður í gæsluvarðhald tveimur dögum eftir að stúlkan lagði fram kæru á hendur honum. Stúlkan fór sjálf á lögreglustöðina og kærði stjúpföður sinn.

Stúlkan kom á lögreglustöðina miðvikudaginn 21. mars á þessu ári. Þar lýsti hún fyrir lögreglu með hvaða hætti maðurinn hefði brotið gegn henni frá því hún var 10 ára gömul, en hún er rúmlega tvítug í dag.

Daginn eftir, eða þann 22. mars, var maðurinn yfirheyrður. Í dómi Héraðsdóms Reykjaness segir að í skýrslutöku hjá lögreglu þann dag sagðist hann ekki trúa því að verið væri að saka hann um kynferðisbrot og kvað ekkert tilefni fyrir slíkum ásökunum.

Hann viðurkenndi þó að hafa komið við brjóstin á stúlkunni árið 2008 en sagði það óviljaverk. „Þá játaði hann að hafa snert kynfæri stúlkunnar utan klæða í nokkur skipti. Hann hafi verið að nudda hana og þá snert á henni kynfærin. Þetta hafi hann gert með samþykki stúlkunnar og að móður hennar viðstaddri," segir í dómi héraðsdóm. Í sömu skýrslutöku neitaði maðurinn hinsvegar að hafa haft samræði við stúlkuna.

Daginn eftir, eða þann 23. mars, var maðurinn úrskurðaður í gæsluvarðhald, sem hann hefur setið í óslitið síðan.

Maðurinn var dæmdur fyrir að hafa misnotað stúlkuna kynferðislega ítrekað og gróflega yfir margra ára tímabil. Við aðalmeðferð málsins var hann spurður af hverju hann neitaði sakargiftum nær alfarið við fyrstu skýrslugjöf hjá lögreglu svaraði hann því til að hann hafi verið ruglaður og ráðvilltur og ekki vitað hvað væri að gerast.

Stúlkan lýsti því fyrir dómi að stjúpfaðir sinn hafi beitt sig kynferðislegu ofbeldi um rúmlega 10 ára skeið, þrisvar til fjórum sinnum í viku.

Þetta er einn þyngsti kynferðisbrotadómur sem fallið hefur hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×