Innlent

Enn treystir enginn sér til að meta tjónið

BBI skrifar
Atvinnuveganefnd fundaði í morgun um veðurhamfarirnar á Norðurlandi í síðustu viku. Enn treystir enginn sér til að meta tjónið sem varð af óveðrinu og ekki er von á neinum tölum fyrr en í fyrsta lagi í október.

„Við vorum bara að fara yfir stöðuna með ýmsum aðilum, sveitarstjórnarmönnum, þeim sem koma að raforkumálum á svæðinu og þeim sem koma að búfénaði á svæðinu," segir Jónína Rós Guðmundsdóttir, varaformaður atvinnuveganefndar, um fundinn í morgun. „Margt kom á óvart. Sumt var jákvætt og sumt neikvætt," bætir hún við en fundurinn stóð yfir í um þrjá tíma.

Jónína vill lítið gefa upp um efni fundarins í bili en segir þó að langt sé í að tölur um heildartjónið á landsvæðinu liggi fyrir. „Það treystir sér enginn til að meta tjónið að svo stöddu. Það er verið að safna upplýsingum en það verða engar upplýsingar tilbúnar fyrr en í október," segir hún.

Enn eru þúsundir fjár á fjalli og bændur vita ekki gjörla hver afföllin verða. Girðingar liggja undir snjó og eru eflaust víða ónýtar. Af þessum sökum er erfitt að átta sig á umfangi tjónsins. „Það væru kannski helst þeir hjá Rarik eða Landsneti sem sjá um rafmagnið sem gætu áætlað tjónið en þeir vilja heldur ekki gera það í bili," segir Jónína.

Umræður um fárviðrið og afleiðingar þess hefjast á Alþingi klukkan tvö í dag og þar munu þingmenn ræða hvernig best sé að bregðast við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×