Innlent

Eina vegagerðin næstu tvö ár

Kristján Már Unnarsson skrifar
Lægsta boð í lagningu nýs Álftanesvegar reyndist tvöhundruð milljónum króna undir kostnaðaráætlun. Þetta er stærsta verk sem boðið hefur verið út í vegagerð á Reykjavíkursvæðinu í fjögur ár og eina stóra verkið sem þar verður unnið næstu tvö árin.

Verkið var áður boðið út árið 2008 en þá slegið af vegna hrunsins. Leggja á nýjan fjögurra kílómetra veg frá gatnamótum Hafnarfjarðavegar í Engidal áleiðis að Bessastöðum, með einum mislægum gatnamótum, áningarstað í Gálgahrauni og tvennum undirgöngum fyrir göngufólk.

Þetta er stærsta verk sem Vegagerðin hefur boðið út á Reykjavíkursvæðinu frá því í ársbyrjun 2008 og þegar tilboðsfrestur rann út klukkan 14 í dag lágu fyrir fimm tilboð, öll undir kostnaðaráætlun sem var upp á 865 millljónir króna. Loftorka í Garðabæ bauð lægst, 659 milljónir króna, um 76 prósent af áætlun, en næstlægsta boð, frá ÍAV, var 87 milljónum hærra.

Íbúar í nágrenninu hafa barist gegn lagningu vegarins, síðast með undirskriftasöfnun í sumar, en Vegagerðin segir umferðaröryggi kalla á nýjan veg. Framkvæmdaleyfi liggur fyrir og er stefnt að því að framkvæmdir hefjist á næstu vikum. Verkinu á að vera að fullu lokið fyrir mitt sumar 2014.

Í viðtali í fréttum Stöðvar 2 sagði Jónas Snæbjörnsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar suðvestanlands, að þetta væri eina stóra verkið sem þar væri áformað næstu tvö ár.



Tilboð í Álftanesveg

Kostnaðaráætlun 865,0 m.kr.

1. Loftorka 659,2 m.kr. 76,2%

2. ÍAV 746,1 m.kr. 86,3%

3. Urð og Grjót 799.6 m.kr. 92,4%

4. Ístak 822,0 m.kr. 95,0%

5. Suðurverk 844,1 m.kr. 97,6%




Fleiri fréttir

Sjá meira


×