Erlent

Slóvenar og Austurríkismenn í diplómatískri deilu

Kranjska-pylsan þykir lostæti á landamærum Slóveníu og Austurríkis.
Kranjska-pylsan þykir lostæti á landamærum Slóveníu og Austurríkis.
Diplómatísk deila hefur blossað upp milli Slóveníu og Austurríkis. Þrætueplið er fábrotin pylsa.

Í Slóveníu er pylsan kölluð „Kranjska klobasa" á meðan Austurríkismenn hafa löngum kallað hana „Krainerwurst."

Nöfnin vísa bæði til sömu pylsunnar en hún þykir lostæti og er rótgróin matarhefð á landamærum landanna. Þá er pylsan sögð samofin menningararfi Slóveníu og Austurríkis.

En Slóvenar hafa nú farið fram á að fá einkaleyfi á nafninu. Yfirvöld í landinu hafa sent inn umsókn til Evrópusambandsins um að pylsan og nafn hennar verði færð undir umsjá Slóvena vegna uppruna hennar og landfræðilegrar tilvísunar.

Austurríkismenn eru ekki hrifnir af þessari þróun mála.

Slóvenar krefjast þess að Evrópusambandið skilgreini pylsuna sem landfræðilega eign þeirra.mynd/AP
„Það mun enginn koma í veg fyrir að við njótum Krainer-pylsunnar," sagði Niki Berlakovich, landbúnaðarráðherra Austurríkis. Hann sagði að pylsan gegndi mikilvægu efnahagslegu hlutverki og að afnám hennar myndi stefna matarhefðum landsins í hættu.

Slóvenar krefjast þess að Evrópusambandið skilgreini pylsuna sem landfræðilega eign þeirra - líkt og gert var með Champagne í Frakklandi og Parmesan ost á Ítalíu.

„Rökfærslur okkar eru gildar," sagði umhverfis- og landbúnaðarráðherra Slóveníu, Franc Bogovic. „Við vonumst til þess að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins viðurkenni rétt okkar varðandi Kranjska-pylsuna."

Takist löndunum ekki að komast að niðurstöðu mun framkvæmdastjórn Evrópusambandsins neyðast til að skera úr um hver sér réttbær eigandi „Krainer/Kransjka-pylsunnar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×