Innlent

Læknafélagið leggst gegn græðara-tillögunni

Læknafélag Íslands segir að samþykki Alþingi þingsályktunartillögu um niðurgreiðslu á heildrænum meðferðum græðara sé það að leggja að jöfnu, hefðbundna, viðurkennda og gagnreynda heilbrigðisþjónustu annars vegar og þjónustu með ósannaða gagnsemi hinsvegar. Slíkt sé ekki ásættanlegt.

Í síðustu viku lögðu fjórir þingmenn fram þingsályktunartillögu um „að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp sem kanni hvort niðurgreiða skuli heildrænar meðferðir græðara til jafns við aðra heilbrigðisþjónustu og/eða undanþiggja þær greiðslu virðisaukaskatts," eins og það er orðað í tillögunni.

Í ályktun frá Læknafélagi Íslands segir að undanfarin ár hafi heilbrigðiskerfið þurft að búa við viðvarandi niðurskurð fjárveitinga og skerta þjónustu við sjúklinga. „Allt of litlu fjármagni hefur verið varið til reksturs heilbrigðiskerfisins og íslenskir sjúklingar þurfa að reiða fram umtalsverðar upphæðir fyrir læknisþjónustu, lyf og rannsóknir auk þess sem þjónusta sálfræðinga og tannlækna er að stærstum hluta án greiðsluþátttöku ríkisins.

Stjórn Læknafélags Íslands telur ástæðulaust og rangt við óbreyttar aðstæður að stefna að breytingum í þá veru sem þingsályktunartillaga fjórmenninganna felur í sér. Læknafélagið leggst því gegn samþykkt þessarar tillögu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×